Ómar Ingi Magnússon átti hreint einstakan leik með Magdeburg í kvöld þegar liðið lagði Leipzig á útivelli í næst síðustu umferð þýsku 1. deildarinnar, 36:31. Ómar Ingi skoraði 13 mörk og geigaði ekki á skoti. Sex markanna skoraði Selfyssingurinn úr vítaköstum. Auk þess átti hann þrjár stoðsendingar.
Ómar Ingi gerir þar með tilkall til markakóngstitilins í þýsku 1. deildinni annað árið í röð. Hann hefur skorað 231 marka, einu fleira en Bjarki Már Elísson og tveimur færra en Hans Óttar Lindberg. Lokaumferðin fer fram á sunnudaginn og verður flautað til leiks á öllum vígstöðum klukkan 13.30.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir meistaralið Magdeburgar og átti þrjár stoðsendingar.
Íslendingaliðið Balingen er komið með a.m.k. annan fótinn niður í 2. deild eftir að GWD Minden vann Erlangen, 22:21, í Minden í kvöld. Minden er þar með í þriðja neðsta sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan Balingen. Þess utan er markatala Minden mikið hagstæðari og þarf Balingen að vinna um 42 marka mun til þess að eiga von um að halda sæti sínu að því að tilskyldu að Minden nái ekki jafntefli gegn Wetzlar á sunnudaginn.
Viggó Kristjánsson skoraði sjö mörk og átti fjórar stoðsendingar í næst síðasta leik sínum fyrir Stuttgart þegar liðið lagði HSV Hamburg örugglega, 32:27, í Hamborg. Andri Már Rúnarsson nýtti sitt tækifæri vel og skoraði m.a. þrjú af mörkum Stuttgartliðsins.
Viggó færir sig um set í sumar og gengur til liðs við Leipzig.
Botnlið Lübbecke vann Hannover-Burgdorf með eins marks mun, 21:20, á heimavelli. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
Leikir lokaumferðarinnar á sunnudaginn kl. 13.30:
THW Kiel – Göppingen.
Magdeburg – Rhein-Neckar Löwen.
Hannover-Burgdorf – Leipzig.
Füchse Berlin – Flensburg.
HSG Wetzlar – GWD Minden.
Lemgo – Hamburg.
Stuttgart – Melsungen.
Bergischer – Lübbeceke.
Erlangen – Balingen-Weilstetten.