- Auglýsing -
- Spænski vinstri hornamaðurinn Valero Rivera hefur skrifað undir nýjan samning við franska 1.deildarliðið Nantes. Samningurinn gildir fram á mitt árið 2024. Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður verður liðsfélagi Rivera á næsta keppnistímabili.
- Martin Boquist sem var um árabil aðstoðarþjálfari sænska karlalandsliðsins er sagður líklegur til þess að taka við starfi aðstoðarþjálfara norska karlalandsliðsins og verða þar með hægri hönd Jonas Wille sem á dögunum var ráðinn þjálfari norska karlalandsliðsins til þriggja ára. Boquist var sagt upp hjá sænska landsliðinu fljótlega eftir að Svíar unnu Evrópumeistaramótið í janúar sl. Hann hefur borið sig aumlega í sænskum fjölmiðlum og sagt að illa hafi verið komið fram við sig.
- Sporting Lissabon varð portúgalskur bikarmeistari í handknattleik karla í fyrsta sinn í átta ár sl sunnudagskvöld. Sporting vann Porto í tvíframlengdum úrslitaleik, 36:35.
- Hollenska landsliðskonan Estavana Polman hefur ekki gefið upp vonina um að leika með Esbjerg á næsta keppnistímabili þrátt fyrir að forráðamenn félagsins vilja ekkert með hana og umboðsmann hennar hafa eftir að það kastaðist í kekki í vetur. Polman segir í samtali við Handbal inside að enn sé hægt að bera klæði á vopnin. Vilji hennar standi til að leika með félaginu enda hafi hún og fjölskyldan löngun til þess að búa í Esbjerg. Eiginmaður Polman, Rafael Van Der Vaart, er knattspyrnuþjálfari í bænum. Polman hefur leikið með Esbjerg í níu ár.
- Danska úrvalsdeildarliðið Herning-Ikast nefnist aðeins Ikast á næsta keppnistímabili. Nýir styrktaraðilar koma að félaginu á næstu leiktíð og þar með er nafni nágrannabæjar Ikast, Herning, kastað fyrir róða. Ekki eru mörg ár síðan félagið lék undir heitinu Midtjylland og lék Rut Arnfjörð Jónsdóttir með liðinu um skeið undir því heiti.
- Auglýsing -