Í dag verður dregið í riðla fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Póllandi og Svíþjóð frá 11. til 29. janúar á næsta ári. Þrjátíu og tvö landslið taka þátt í mótinu og liggja nöfn tuttugu og sjö þeirra fyrir í dag þegar dregið verður í Katowice í Póllandi. Athöfnin hefst klukkan 15 og mun standa yfir í hálfa aðra klukkustund.
Nöfn fimm Afríkuþjóða sem taka þátt bætast í hópinn þegar Afríkukeppninni verður lokið 18. júlí.
Ísland er í fyrsta styrkleikaflokki og mun dragast gegn einu liði úr öðrum, þriðja og fjórða styrkleikaflokki.
Sterk lið bættust í fjórða flokk
Kosturinn við að vera í fyrsta styrkleikaflokki er sá að þá verður komist hjá að mæta allra sterkustu landsliðunum í riðlakeppninni, þ.e. á fyrsta stigi mótsins. Þar af leiðandi aukast möguleikarnir á að taka með stig í milliriðla. Að vera með stig í pokahorninu í milliriðlum getur reynst dýrmætt. Reyndar bættust tvær afar sterkar þjóðir inn í fjórða styrkleikaflokkinn þegar Slóvenum og Hollendingum var á dögnum veitt sérstök keppnisheimild á mótinu, svokallað wild card, af stjórn Alþjóða handknattleikssambandsins.
1. flokkur: | 2. flokkur: | 3. flokkur: | 4. flokkur: |
Danmörk | Katar | Serbía | Úrúgvæ |
Svíþjóð | Króatía | Argentína | Afríka4 |
Spánn | Belgía | Ungv.land | Afríka5 |
Frakkland | Brasilía | Barein | Íran |
Noregur | Portúgal | S.Arabía | Suður Kórea |
Ísland | Pólland | Afríka2 | Bandaríkin |
Þýskaland | Svartfj.land | Chile | Slóvenía |
Afríka1 | N.Makedónía | Afríka3 | Holland |
Byrja í Kristianstad
Ísland verður í D-riðli en leikir þess riðils fara fram í Kristianstad. Leikirnir verða 12., 14., og 16. janúar. Komist íslenska liðið upp úr riðlinum og áfram í milliriðla flytur það sig um set til Gautaborgar og leikur 18., 20. og 22. janúar við lið úr C-riðli þar sem m.a. verða að öllum líkindum Evrópumeistarar Svía.
Flestum þeim efstu raðað niður
Af þeim liðum úr fyrsta styrkleikaflokki sem hefur verið raðað niður í riðla verða Spánverjar í A-riðli í Kraká, Svíar í C-riðli í Gautaborg, Ísland í D-riðli í Kristianstad, Þjóðverjar í A-riðli í Katowice, Norðmenn í F-riðli í Kráká og Danmörk í H-riðli í Malmö. Króatar verða í G-riðli í Jönköping. Pólverjar taka sæti í B-riðli í Katowice og fá annað hvort Afríkumeistarana eða Frakka með úr fyrsta styrkleikaflokki.
Handbolti.is ætlar að fylgjast með í dag og segja frá framvindunni í Katowice eftir skástu getu.