„Þetta er annað stórmótið okkar saman því flestir okkar voru í hópnum á EM 19 ára í fyrrasumar. Nú erum við með Tryggva Þórisson til viðbótar. Hann var meiddur í fyrra. Það munar um að vera með stóran línumann og meiri vigt í vörninni,“ sagði Guðmundur Bragi Ástþórsson einn leikmanna U20 ára landsliðs Íslands í handknattleik í samtali við handbolta.is vegna Evrópumótsins sem hefst í Porto á morgun.
Leikjadagskrá riðlakeppninnar: 7. júlí: Ísland - Serbía kl. 16. 8. júlí: Ísland - Ítalía, kl. 11. 10.júlí: Ísland - Þýskalandi, kl. 16.
„Við fundum fyrir því á EM á síðasta sumri að okkur vantaði mann eins og Tryggva. Það sýndi sig á æfingamótinu í Noregi í síðustu viku að miklu munaði að hafa meiri þyngd í vörninni og lengri hendur til þess að grípa línusendingarnar,“ sagði Guðmundur Bragi léttur í bragði en hann hlakkar mjög til mótsins í Porto eins og öðrum leikmönnum íslenska liðsins. Þeir ætla sér að ná langt á mótinu eftir að hafa hafnað í áttunda sæti á EM 19 ára landsliða í Króatíu á síðasta sumri.
Viljum vinna Þjóðverja
„Fyrsta markmiðið okkar er að komast upp úr riðlinum en aðalmarkmiðið er að vinna Þjóðverja í lokaleik riðlakeppninnar og komast þar með áfram með tvö stig inn í milliriðilinn. Ég tel okkur eiga möguleika á að vinna Þjóðverjana, það væri gaman.“
Liðin 16 sem taka þátt í EM drógust í eftirtalda riðla: A-riðill: Spánn, Portúgal, Noregur, Pólland. B-riðill: Slóvenía, Danmörk, Ungverjaland, Færeyjar. C-riðill: Króatía, Svíþjóð, Frakkland, Svartfjallaland. D-riðill: Þýskaland, Ísland, Ítalía, Serbía. Tvö efstu lið hvers riðils fara áfram í átta liða úrslita þar sem liðin úr A og B-riðlum mætast annarsvegar og C og D-riðill hinsvegar. Eins munu tvö neðstu lið hvers riðils leika um sæti níu til sextán.
Serbar í fyrsta leik
Fyrsti leikur íslenska liðsins verður við Serba á morgun klukkan 16. Eftir það tekur við viðureign við Ítali á föstudaginn áður að lokaleiknum í riðlakeppninni kemur á sunnudaginn við Þjóðverja sem urðu Evrópumeistarar fyrir ári á aukamóti sem haldið var eftir að HM19 ára var fellt niður.
Guðmundur Bragi segir Serba hafa reynst íslenska liðinu erfiður mótherji á EM fyrir ári en það tekist að vinna þá með eins marks mun, 31:30. „Við ætlum að mæta glerharðir í leikinn við Serba.
Við höfum allir bætt okkur frá síðasta ári og mér finnst úlitið vera gott í dag. Ég tel okkur geta náð mjög langt,“ sagði Guðmundur Bragi Ástþórsson, einn leikmanna U20 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is.