Serbneska landsliðið, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, gerði sér lítið fyrir og vann Þjóðverja í D-riðli Evrópumeistaramótsins í handknattleik karla, 33:30. Þar með á íslenska landsliðið ennþá möguleika sæti í átta liða úrslitum fyrir lokaumferðina á sunnudaginn. Til þess þá þó allt að ganga upp með íslenska liðinu. Frídagur verður á mótinu á morgun.
Serbar hafa þrjú stig eftir tvo leiki og mæta Ítölum í lokaumferðinni á sunndaginn. Viðureignin hefst klukkan 18.30 en þá verður leik Íslands og Þýskalands lokið en hún hefst klukkan 16.
Til þess að komast áfram í átta liða úrslit verður íslenska liðið að vinna Þýskaland og treysta á að Serbar leggi Ítali í framhaldinu. Þar með hreppti Serbía efsta sæti með fimm stig og Ísland annað sæti með þrjú stig. Ítalía og Þýskaland enduðu þá með tvö stig hvort og tækju sæti í keppni um níunda til sextánda sæti mótsins.
Ef Ísland vinnur Þýskaland og Ítalía og Serbía skilja jöfn þá verða Ísland og Ítalía jöfn með þrjú stig hvort. Ítalía fer þá áfram með Serbíu í átta liða úrslit á sigri í innbyrðisleik við íslenska liðið í morgun.
Eins er möguleiki á að Ísland fari áfram með sigri á Þýskalandi ef Ítalía vinnur Serba. Þá verða Íslendingar og Serbar jafnir að stigum og heildarmarkatala mun væntanlega ráða því hvort liðið fer áfram með ítalska landsliðinu sem tæki efsta sætið með fjögur stig.