- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fer aftur í bankann

Kristján Andrésson er kominn í vinnu hjá Ludvika. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Kristján Andrésson, fyrrverandi landsliðsþjálfari karlalandsliðs Svíþjóðar og landsliðsmaður Íslands í handknattleik, hefur ekki verið mikið í fréttum síðustu mánuði. Hann gerði það gott með sænska landsliðið um nærri fjögurra ára skeið en tók í fyrrasumar við þýska stórliðinu Rhein-Neckar Löwen þegar Daninn Nikolaj Jacobsen ákvað að helga sig alfarið þjálfun danska karlalandsliðsins. Dvöl Kristjáns hjá Rhein-Neckar Löwen varð styttri en til stóð enda heimur handknattleiksþjálfara oft hverfull.

Kristján stýrði sænska landsiðinu í síðasta sinn á EM í byrjun þessa ár og ætlaði að einbeita sér alfarið að þjálfun Rhein-Neckar Löwen. Ekki var hinsvegar liðin nema um mánuður frá því að EM lauk þangað til Kristján var orðinn atvinnulaus. Árangur Rhein-Neckar Löwen var ekki viðundandi að mati forráðamanna félagsins og leystu þeir Kristján frá störfum eftir aðeins átta mánuði í starfi. Hann hafði verið ráðinn til þriggja ára.

Kristján hefur lítið vilja tjá sig um endalokin hjá Rhein-Neckar Löwen og haldið sig utan kastljóss fjölmiðla allt þar til að á dögunum birtist langt viðtal við hann í Aftonbladet í Svíþjóð en þar hefur Kristján búið nær alla ævi, nánar tiltekið í Eskilstuna.

Sér ekki eftir neinu

„Ég hefði gjarnan viljað vera áfram hjá Löwen en það var ekki mitt að ákveða það,“ sagði Kristján í samtali við blaðið en vill að öðru leyti ekki tjá sig mikið um brottreksturinn frá þýska liðinu. „Réttast er að segja sem minnst, en þó má segja að því miður hafi þetta ekki gengið upp hjá mér að þessu sinni. Hvað sem öllu líður þá er ég ánægður að hafa stigið þetta skref þótt endalokin hafi ekki verið eins vonir stóðu til um. Ég er viss um að ef ég hefði ekki stokkið til og tekið við þjálfun Rhein-Neckar Löwen þá hefði ég séð eftir því alla tíð. Eftir á að hyggja hefði ég kannski mátt gera eitt og annað öðruvísi en um það þýðir ekki að tala núna,“ bætti Kristján við en hann gerði starfslokasamning við Rhein-Neckar Löwen á vordögum og flutti heim til Eskilstuna í sumar þegar rofaði aðeins til í kórónuveikifaraldrinum.  Hann segist sannarlega vera reynslunni ríkari eftir dvölina í Þýskalandi.

Gekk aldrei upp

Kristján segist ekki naga í handabökin yfir að hafa hætt störfum sem landsliðsþjálfari Svía þótt svona hafi farið í Þýskalandi. Það hefði aldrei  gengið upp til lengri tíma litið að sinna báðum störfum, annarsvegar hjá sænska landsliðinu og hinsvegar hjá Rhein-Neckar Löwen. Hreinlega hefði það aldrei verið samþykkt og ljóst að þegar hann ákvað að taka tilboði þýska liðsins þá var ekki hljómgrunnur fyrir að hann stýrði landsliðinu lengur en fram yfir EM2020 í upphafi árs.

Spurður hvað taki nú við sagðist Kristján reikna með taka við sínu gamla starfi í banka í Eskilstuna þar sem hann starfaði áður árum saman áður en hann tók að sér þjálfun sænska landsliðsins haustið 2016. Vonast hann til þess að síðustu endarnir verði hnýttir fljótlega og hann taki til starfa í bankanum með starfsaðstöðu í Eskilstuna þar sem hann býr ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum.

Kristján segir að hann hafi fundið fyrir áhuga félaga að fá hann til þjálfarastarfa. Hinsvegar hafi covid19 sett strik í reikninginn auk þess sem fjölskyldan væri sammála um að ekki væri æskilegt að ung börn hans kynntust þriðja skóla sínum. Einhugur hafi ríkt um að halda heim til Eskilstuna.

Útilokar ekkert

„Ég hef lært að útiloka ekkert þegar kemur að handknattleiksþjálfun. En ég er ekki í leit að þjálfarastarfi og hef engan umboðsmann með allar klær úti. Þess stundina erum við að koma okkur fyrir í Eskilstuna. Hvað framtíðin ber í skauti sér veit enginn. Ég útiloka ekki að fara á ný út í þjálfun enda hef ég unnið við það í hlutastarfi eða í fullu starfi í 15 ár. Dyrnar standa svo sem alltaf opnar. Ég hef ekki lokað þeim ennþá þótt ég hafi sett annað á oddinn um þessar mundir,“ sagði Kristján m.a. í samtalinu við Aftonbladet.

Eins og fyrr segir tók Kristján við sænska landsliðinu haustið 2016. Staffan Olsson og Ola Lindgren höfðu sagt störfum sínum lausum eftir Ólympíuleikana 2016 þar sem sænska landsliðinu gekk ekki sem skildi. Sænska handknattleikssambandið leitaði með logandi ljósi að þjálfara. Fáir virtust áhugasamir þangað til að rætt var við Kristján sem hafði um vorið hætt eftir nokkurra ára ágætan feril sem þjálfari Guif í Eskilstuna.

Alltaf meðal átta efstu

Skemmst er frá að segja að sænska landsliðið náði sér undireins á flug undir stjórn Kristjáns og hafnaði í sjötta sæti á HM 2017 í Frakklandi, lék til úrslita en tapaði fyrir Spánverjum í úrslitaleik EM árið eftir og varð í fimmta sæti á HM 2019. Það voru Svíum nokkur vonbrigði að ná aðeins sjöunda sæti á EM á heimavelli í upphafi þessa árs. Skellur á móti Portúgal í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar reyndist dýr þegar upp var staðið.

„Við vorum á meðal átta efstu í öllum mótum undir minni stjórn. En með hliðsjón af hversu sterk landslið Frakka, Norðmanna, Dana, Spánverja og Króata eru um þessar mundir þá getum við ekki litið á það sem sjálfsagðan hlut að vera í undanúrslitum á öllum mótum,“ sagði Kristján Andrésson, fyrrverandi landsliðsþjálfari sænska landsliðsins og landsliðsmaður Íslands í samtali við Aftonbladid í Svþjóð á dögunum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -