Berta Rut Harðardóttir handknattleikskona úr Haukum hefur skrifað undir eins árs samning við danska handknattleiksliðið Holstebro Håndbold.
Berta Rut er 22 ára gömul og getur leikið jafnt í hægra horni og sem hægri skytta. Hún hefur á undanförnum árum verið ein af öflugri leikmönnum Hauka og leikið með meistaraflokki liðsins í Olísdeildinni undanfarin sex ár.
Holstebro, er frá samnefndum bæ á miðvesturhluta Jótlands, féll úr dönsku úrvalsdeildinni í vor eftir að hafa verið um árabil eitt af betri liðum deildarinnar. Nokkur uppstokkun varð á leikmannahópnum í framhaldinu en engu að síður hefur stefnan verið tekin rakleitt upp í deild þeirra bestu á nýjan leik. Félagið segir að koma Bertu Rutar sé síðasta púslið í nýrri mynd sem er að taka sig á liðinu fyrir komandi leiktíð. Um leið eru forráðamenn félagsins þakklátir Haukum fyrir að samþykkja leigusamning vegna komu Bertu Rutar.
Berta þekkir vel til í Danmörku en hún átti heima í Horsens um árabil áður en hún kom til liðs við Hauka fyrir átta árum.
„Ég er mjög spennt enda er um að ræða spennandi lið og deild. Ég held að þetta verði klárlega rétt skref fyrir mig þar sem mér finnst ég þurfa á nýrri áskorun að halda,“ sagði Berta Rut í skilaboðum til handbolta.is.
Nokkur hópur Íslendinga hefur leikið með kvennaliði Holstebro í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefnda Hrafnhildi Ósk Skúladóttur, Kristínu Guðmundsdóttur, Helgu Torfadóttur, Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur, Ingu Fríðu Tryggvadóttur, Rut Arnfjörð Jónsdóttur og Þóreyju Rósu Stefánsdóttur. Tvær þær síðastnefndu unnu EHF-bikarinn með liði Holstebro fyrir níu árum.