- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Algjör karaktersigur hjá okkur“

Kristján Örn Kristjánsson, Donni. Mynd/PAUC
- Auglýsing -

„Þetta var algjör karakterssigur hjá okkur,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson, Donni, við handbolta.is í kvöld eftir að lið hans, PAUC-Aix, vann Dunkerque naumlega á útivelli, 26:25, í frönsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld.

Sigurinn stóð tæpt því það var ekki fyrr en í blálokin sem Donni og félagar náðu að skjótast framúr og tryggja sér stigin tvö eftir að hafa verið fjórum mörkum undir, 23:19, þegar stundarfjórðungur stóð eftir af leiktímanum. Segja má að þeir hafi komið sjónarmun á undan í markið.


„Við náðum að halda kúlinu alveg í gegn, og í lokin tókst okkur að klára þetta,“ sagði Donni sem skoraði fimm mörk í átta skotum og var næst markahæstur hjá PAUC. Wesley Pardin, markvörður, átti frábæran leik og var með 40% markvörslu. Munar um minna í jafn jöfnum leik.

Ánægður með fyrri hálfleik

„Ég er ánægður með hvernig fyrri hálfleikurinn gekk hjá mér. Í þeim seinni var ég nokkuð ragur, ég viðurkenni það. En þá var líka gott að hafa Imanol Garciandia Alustiza, hina hægri skyttuna í liðinu, til að taka við,“ sagði Donni ennfremur.
Donni er markahæsti leikmaður PAUC á leiktíðinni með 30 mörk í sex leikjum. Skotnýting hans er 70% sem frábært fyrir mann í skyttustöðunni hægra megin.

Enginn heimaleikur til þessa

Leikurinn í kvöld var sá sjötti hjá PAUC á leiktíðinni. Allir hafa þeir verið á útivelli. Af þeim hafa fimm unnist og aðeins einn tapast, gegn stórliði PSG í fyrstu umferð. Staðan er þar með góð en liðin fyrir ofan í stöðutöflunni hafa þegar lagt að baki átta til tíu leiki hvert. Nú fer vonandi að koma að heimaleikjum hjá Donna og félögum. Kórónuveiran hefur komið í veg fyrir heimaleiki til þessa en veiran hefur farið sem eldur í sinu í kringum Aix, sem er ekki ýkja langt frá Montpellier. Gangi væntingar eftir verður fyrsti heimaleikurinn gegn Nimes á laugardaginn.

Fjögurra daga ferð í einn leik

„Stjórnendur félagsins og við strákarnir erum mjög ánægðir með gengið til þessa enda fimm sigrar á fimm útvöllum frábært,“ sagði Donni.
Langt ferðalag er á milli Aix og Dunkerque. Donni sagði fjóra daga fara í leikinn í kvöld. Liðið gistir í Dunkerque tvær nætur, í nótt og fyrrinótt, og leggur af stað heim í fyrramálið. Reiknað er með að Donni og félagar verði komnir til síns heima um klukkan níu annað kvöld.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -