„Þetta var frábærlega heppnað, við fengum mjög mikið út úr þessu, bæði leikmenn og þjálfarar,“ segir Halldór Örn Tryggvason, yfirþjálfari yngri flokka félagsins, við Akureyri.net. Halldór Örn var einn fimm Þórsara sem sótti á dögunum vikulangar handboltabúðir í Kladova í Serbíu sem kallast Handball 4 All.
Auk Halldórs fóru utan leikmennirnir Jón Ólafur Þorsteinsson og Kristján Páll Steinsson, markvörður, báðir fæddir 2002, og þjálfarinn Ágúst Lárusson. Fimmti í hópnum var Stevce Alusevski, þjálfara meistaraflokks Þórs.
Stofnandi og stjórnandi búðanna er Serbinn Dragan Djukic, gamalreyndur þjálfari sem m.a. hefur stýrt landsliðum Svartfjallalands og Bretlands en einnig verið við stjórnvölin hjá félagsliðum í Evrópu.
„Þetta eru fyrst og fremst þjálfarabúðir en jafnframt tækifæri fyrir unga leikmenn til að sýna sig og læra; þarna koma ungir leikmenn víða að, aðallega 23 ára og yngri,“ segir Halldór Örn, segir Halldór Örn ennfremur.
Ekki var slegið slöku við þessa viku í Kladova. Dagskrá stóð yfir frá árla morguns fram á kvöld. Farið var yfir líkamlega þáttinn, íþróttasálfræðingur fór yfir andlega þáttinn, og eftir formlega dagskrá var svo sest niður og talað um handbolta til miðnættis eða lengur.
„Þarna voru frábærir fyrirlesarar og æfingarnar voru ekki síður frábærar, við lærðum helling á þessari einu viku,“ segir Halldór Örn. „Þetta var alveg stórkostleg vika og handboltalegur ávinningur gríðarlega mikill. Við erum mjög þakklátir Stevce og Þór, bæði unglingaráði og stjórn meistaraflokks, að gefa okkur þetta tækifæri,” segir Halldór Örn Tryggvason en nánar má fræðast um dvöl hans á námskeiðinu í samtali Akureyri.net við Halldór.
Viðtal Akureyri.net við Halldór Örn Tryggvason.