- Auglýsing -
- Auglýsing -

U18: „Sýnd veiði en ekki gefin“

Ágúst Þór Jóhannsson leggur á ráðin með leikmönnum sínum í dag. Mynd/Brynja
- Auglýsing -

„Landslið Alsír er sýnd veiði en ekki gefin,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson ákveðinn þegar handbolti.is heyrði stuttlega honum hljóðið í dag. Ágúst Þór var þá í óða önn að búa sig og íslenska landsliðið undir viðureignina við Alsír á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik á morgun í Jane Sandanski-íþróttahöllinn í Skopje í Norður Makedóníu.


Íslenska landsliðið hefur unnið Svía en gert jafntefli við Svartfellinga á mótinu til þessa á sama tíma og alsírska liðið hefur tapað illa fyrir sömu liðum, 54:30 fyrir Svíum og 38:16 á móti Svartfellingum.


Mynd/Brynja


Ágúst Þór varar við bjartsýni fyrir leikinn þótt staða liðanna sé misjafnlega hagstæð og Alsírbúar séu orðnir vonlausir um sæti í keppni 16 efstu liða mótsins, öfugt við Íslendinga.

Mætum af fullum krafti

„Við verðum að mæta af fullum krafti og þurfum að halda einbeitingu til þess að spila vel,“ sagði Ágúst Þór sem er þrautreyndur þjálfari sem þekkir að kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið.


„Við þurfum á góðri frammistöðu að halda til þess að fara á sannfærandi hátt upp úr riðlinum og í baráttu sextán efstu liðanna á mótinu,“ sagði Ágúst Þór sem reiknar með að byrja með sitt öflugasta lið í leiknum eins og í fyrri viðureignum á mótinu. Það muni síðan ráðast af þróun leiksins hvort hægt verði að dreifa álaginu. En víst sé að íslenski hópurinn fari af fullri alvöru inn í leikinn sem hefst klukkan 10.30 að íslenskum tíma á morgun.


Handbolti.is verður að vanda með textalýsingu frá leiknum auk þess sem hægt verður að tengjast streymi frá Jane Sandanski-íþróttahöllinni í Skopje í gegnum forsíðu handbolta.is.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -