Eftir að íslenska kvennalandsliðið innsiglaði sér sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistaramóts 18 ára landsliða í dag liggur fyrir að liðið leikur við Norður Makedóníu og Íran í milliriðlakeppninni, þ.e. tveimur efstu liðum í B-riðli. Íran og Norður Makedónía eru örugg áfram úr B-riðli eftir að hafa unnið leiki sína í tveimur fyrstu umferðum riðlakeppninnar.
Norður Makedónía og Íran mætast í uppgjöri um efsta sæti B-riðils í kvöld. Á sama tíma eigast við Svartfjallaland og Svíþjóð í A-riðli og kljást um að fylgja íslenska landsliðinu eftir í milliriðil eitt á HM.
Ef Svíar vinna leikinn fylgja þeir íslenska landsliðinu eftir. Ísland mun þar með taka með sér tvö stig í milliriðlakeppnina sem skiptir miklu máli til að eiga betri möguleika á að ná inn í átta liða úrslit.
Ef Svartfellingar vinna Svía eða gera jafntefli elta þeir íslenska liðið áfram í milliriðil. Svartfellingar verða að vinna með amk átta marka mun til þess að skáka íslenska liðinu í kapphlaupi um efsta sæti riðilsins.
Fari Svartfellingar áfram með Íslandi byrjar hvort lið með eitt stig í milliriðlakeppninni.
Fyrri leikur Íslands í milliriðli verður á morgun, miðvikudag, en sá síðari á föstudaginn. Leiktímar eru annað hvort kl. 16.30 eða 18.30 (íslenskur tími).
Handbolti.is mun segja frá framhaldinu um leið og það liggur fyrir í kvöld.
Sextán liða úrslit verða leikin í fjórum fjögurra liða riðlum. Tvö efstu lið hvers riðils komast í átta liða úrslit. Tvö þau neðri taka sæti í keppni um níunda til sextánda sætið.