Íslenska landsliðið í handknattleik karla, 18 ára og yngri, leikur um níunda til sextánda sætið á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi eftir að hafa tapað fyrir Þjóðverjum, 35:31, í uppgjöri um það hvort liðið færi upp úr riðlinum og í átta liða úrslit ásamt Ungverjum. Staðan var jöfn í hálfleik, 18:18. Í síðari hálfleik gekk fæst upp hjá íslenska liðinu auk þess sem markvörður þýska liðsins Julian Buchele lék piltana afar grátt.
Næsti leikur íslenska liðsins verður á þriðjudaginn. Ljóst er að íslenska landsliðið leikur við Svartfjallaland eða Ítalíu í milliriðlakeppninni um níunda til 16. sætið. Síðar í dag skýrist hvort liðið verður andstæðingur Íslands í fyrri viðureigninni.
Ljóst er þó að tvö stig fylgja íslenska liðinu áfram eftir sigur á Pólverjum sem einnig taka þátt í leikjunum í neðri hluta mótsins.
Um leið og næstu leikir íslensku piltanna liggja fyrir verður sagt frá því á handbolti.is.
Mikill hraði var í leiknum í fyrri hálfleik, ekki síst fyrstu 20 mínúturnar. Á þeim kafla voru íslensku piltarnir með yfirhöndina. Þeir voru með tveggja til þriggja marka forskot þegar best lét. Undir lok fyrri hálfleiks náðu Þjóðverjar meiri stjórn á leik sínum og jöfnuðu þar með metin.
Kjartan Þór Júlíusson skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks, 19:18. Þjóðverjar svöruðu með þremur mörkum. Það sem eftir var leiks var forskotið í höndum þýska liðsins. Íslenska liðið náði að minnka muninn í eitt mark, 29:28, þegar átta mínútur voru til leiksloka. Nær komst það ekki.
Mörk Íslands: Elmar Erlingsson 9, Kjartan Þór Júlíusson 5, Atli Steinn Arnarson 4, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Andri Fannar Elísson 3, Andrés Marel Sigurðarson 3, Hans Jörgen Ólafsson 1, Sigurður Snær Sigurjónsson 1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í beinni textalýsingu hér fyrir neðan.