EHV Aue, með Íslendingana Arnar Birkir Hálfdánsson og Sveinbjörn Pétursson markvörð, innanborðs náði loks að leika í gærkvöld í þýsku 2. deildinni í handknattleik en fá félög deildarinnar hafa orðið verr úti í kórónuveirunni en Aue. M.a. er þjálfari liðsins enn veikur og nýkominn heim af sjúkrahúsi eftir því sem næst verður komist.
Aue sótti heim næst neðsta lið deildarinnar, Hüttenberg, og tókst að ná í eitt stig sem verður bara að teljast nokkuð viðunandi miðað við ástandið, 26:26. Vissulega hefði Aue ekki slegið hendinni á móti báðum stigunum en í jöfnum leik var þetta e.t.v. sanngjörn niðurstaða. Merlin Fuß jafnaði metin fyrir Hüttenberg þegar 14 sekúndur voru til leiksloka.
Arnar Birkir skoraði eitt mark í tveimur skotum fyrir Aue. Sveinbjörn Pétursson varði tvö skot á þeim ríflega 14 mínútum sem hann fékk tækifæri til að spreyta sig. Aue er í 12. sæti af 19 liðum með sjö stig að loknum fimm leikjum. Annars er staðan í 2. deild fremur óskýr þar sem liðin hafa leikið mjög mismarga leiki.
Annað Íslendingalið er í verri málum en það hefur einnig orðið harðlega fyrir barðinu á kórónuveirunni, Bietigheim, tapaði í heimsókn til Emsdetten í kvöld, 28:23. Bietigheim situr þar með eitt og yfirgefið á botninum með tvö stig eftir fimm leiki.
Aron Rafn Eðvarðsson varði 11 skot í marki Bietigheim sem gerir um 29% hlutfallsmarkvarsla. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Bietigheim.