- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eftirvænting hjá Íslendingum – ný handboltahöll opnuð

Volda Campus Sparbak1 Arena, ný íþróttahöll handknattleiksliðsins Volda í Noregi. /Tölvugerð mynd.
- Auglýsing -

„Við fáum nýja keppnishöll afhenta á morgun. Hún er ein sú glæsilegasta í Noregi og rúmar 2.400 manns í sæti auk þess sem öll aðstaða til æfinga er fyrsta flokks. Í raun verður um byltingu að ræða fyrir klúbbinn,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari norska B-deildarliðsins Volda í samtali við handbolta.is í morgun.

Eins og gefur að skilja ríkir mikil eftirvænting innan raða félagsins fyrir nýja húsinu sem leysir af hólmi Voldahallen sem opnuð var 1978 og er barn síns tíma. Hún verður nýtt til annars en handknattleiks í framtíðinni.

Vígsluleikur í vikunni?

„Við höfum ekki lengur afnot af gamla húsinu frá og með morgundeginum,“ sagði Halldór Stefán sem vonast til að fyrsti leikur Volda-liðsins í nýju keppnishöllinni verði á fimmtudaginn. Volda átti að leika heima í dag gegn Follo en viðureignin átti að vera kveðjuleikur liðsins í Voldahallen. Leiknum var hinsvegar frestað vegna veikinda í herbúðum Volda. Finna verður nýja dagsetningu fyrir þá viðureign.

Séð inni í nýju keppnishöllinni í Volda. Mynd/Aðsend


„Ein í liðinu hjá okkur er veik og þarf að fara í skimun. Við tökum enga áhættu þegar kemur að kórónuveirunni hér ytra,“ sagði Halldór Stefán. „Ef hún reynist ekki með veiruna þá verður fyrsti heimaleikurinn okkar í nýju höllinni á fimmtudaginn gegn Gjerpen.“

Á fimmta ári með liðið

Halldór Stefán er á sínu fimmta ári sem þjálfari Volda. Honum til aðstoðar er Hilmar Guðlaugsson þjálfari og með liðinu leikur íslenska handknattleikskonan Sara Dögg Hjaltadóttir. Volda er í þriðja sæti 1. deildar með 13 stig eftir níu leiki, er þremur stigum á eftir Follo sem er í öðru sæti með 16 stig auk þess að hafa leikið einum leik fleira. Bærum er efst með 17 stig. Framundan er hörð keppni hjá Volda á toppnum í nýrri keppnishöll.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -