- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sveinn Andri kveður Aftureldingu – „Mjög mikil vonbrigði“

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Afturelding hefur orðið fyrir blóðtöku aðeins mánuði áður en flautað verður til leiks í Olísdeild karla. Eini leikstjórnandi liðsins, Sveinn Andri Sveinsson, tilkynnti forráðamönnum Aftureldingar óvænt rétt fyrir nýliðna helgi að hann hafi samið við þýska 2. deildarliðið Empor Rostock og gangi nú þegar til liðs við félagið.


„Ég get ekki sagt annað en að það eru mjög mikil vonbrigði fyrir okkur og ekki síst á þessum tímapunkti að hann kjósi að yfirgefa okkur. Stutt er í mót og ekki um auðugan garð að gresja á leikmannamarkaði svo stuttu fyrir mót,“ sagði Gunnar Magnússon í samtali við handbolta.is þegar hann staðfesti orðróm um brottför Sveins Andra sem verið hefur á sveimi síðustu daga.


„Loksins þegar við sáum fram á að geta teflt honum fram í góðu formi þá gerist þetta,“ sagði Gunnar ennfremur en hann átti erfitt með að leyna gremju sinni enda hefur Afturelding staðið þétt á bak við Svein Andra í erfiðum meiðslum hans síðustu tæpu tvö ár.


Sveinn Andri gekk til liðs við Aftureldingu frá ÍR sumarið 2020. Frá þeim tíma hefur hann meira og minna verið frá vegna meiðsla, m.a. sleit hann krossband í hné og var nær alveg frá keppni fyrra tímabilið og talsvert inn á það síðasta. Þegar Sveinn Andri hafði jafnað sig af krossbandaslitinu tóku við frekari hremmingar með hnéin, svokallað „jumper’s knee“, sem varð til þess að kraftar hans nýttust ekki sem skildi á síðari hluta síðasta tímabils.


Empor Rostock hafnaði í 15. sæti af 20 liðum í þýsku 2. deildinni á síðasta keppnistímabili. Fyrir er hjá félaginu Hafþór Már Vignisson sem gekk til liðs við það í sumar á tveggja ára samningi frá Stjörnunni.


Rostock er hafnarborg við Eystrasalt í austurhluta Þýskalands. Lið félagsins er fornt veldi í handknattleik sem varð tíu sinnum austur-þýskur meistari á sínum tíma auk þess sem það varð Evrópumeistari 1982.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -