Ágúst Þór Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson, þjálfarar U18 ára landsliðs kvenna, sátu kófsveittir í allan dag yfir undirbúningi fyrir lokaleik íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu sem hefst klukkan 9.45 í fyrramálið að íslenskum tíma. Þá mætir íslenska landsliðið egypska landsliðinu í leik um sjöunda sæti mótsins. Um er að ræða áttunda leik beggja liða á mótinu sem hófst 30. júlí og stendur yfir í Skopje í Norður Makedóníu.
Ágúst Þór sagði við handbolta.is að framundan væri tvísýnn leikur við afar öflugt lið sem hafi leikið mjög vel í keppninni. Egyptar töpuðu naumlega fyrir Dönum sem leik til úrslita á mótinu á morgun. Egypska liðið gerði jafntefli við Króatíu og tapaði naumlega fyrir Svíum í mánudagskvöldið.
„Við erum á leiðinni í hörkuleik gegn liði sem er líkamlega sterkt og með fljóta og snögga leikmenn. Í sókninni eru egypsku stúlkurnar grimmar í árásum einn á einn.
Varnarleikurinn er góður. Yfirleitt leikur egypska liðið sex núll vörn en hefur einnig tök á fimm einn vörn. Við verðum að láta boltann ganga mjög vel og hratt á milli okkar til þess að opna vörnina eins við gerðum vel gegn Frökkum og Norður Makedóníu, svo dæmi sér tekið,“ sagði Ágúst Þór sem hlakkar til leiksins enda verður allt lagt í sölurnar til þess að ná sjöunda sætinu sem væri lang besti árangur íslensks kvennaliðs á heimsmeistaramóti í sögunni.
Leikið óvenju snemma
„Dagurinn í dag hefur farið í hvíld en einnig í að fara yfir okkar leik og skoða Egyptana. Allar eru stúlkurnar staðráðnar í að ná sjöunda sætinu og enda mótið á sigri og góðri frammistöðu eftir árangursríkan tíma saman,“ sagði Ágúst Þór sem sér fram á leik óvenjusnemma miðað við aðra leiki fram til þess á mótinu. Leikurinn hefst klukkan 11.45 að staðartíma, 9.45 að íslenskum.
„Við vöknum snemma og byrjum á léttri hreyfingu á hótelinu til að koma öllum af stað. Við ætlum að vera til í slaginn þegar á hólminn verður komið. Saman róum við sem einn maður,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U18 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í kvöld.
Handbolti.is verður að vanda með textalýsingu frá leiknum. Einnig verður hlekkur á streymi frá viðureigninni á forsíðunni.