- Auglýsing -
- Brynhildur Eva Thorsteinson hefur gengið til liðs við Fjölni/Fylki frá Fram og skrifað undir tveggja ára samning eftir því fram kemur á samfélagsmiðlum Fjölnis-liðsins. Fjölnir/Fylkir leikur í Grill66-deild kvenna á komandi keppnistímabili.
- Emilía Ósk Steinarsdóttir leikur ekki með FH á næsta keppnistímabili. Hún verður í Danmörku við nám í vetur og hefur ennfremur í hyggju að leika handknattleik. Alltént hefur Emilía Ósk fengið félagaskipti frá FH til Danmerkur samkvæmt því sem fram kemur á félagaskiptasíðu HSÍ.
- Í gær var staðfest að danski landsliðsmaðurinn Henrik Toft Hansen gengur til liðs við bernskufélag sitt, Mors-Thy, frá og með næsta sumri. Hansen hefur samið við félagið til þriggja ára. Hann mun hafa haft frumkvæði að hafa samband við félagið.
- Ksenija Dzaferovic sem lék um skeið með ÍR í Grill66-deild kvenna hefur fengið félagaskipti til Frakklands eftir því fram kemur á félagaskiptasíðu HSÍ. Hennar nýja félag er ekki tiltekið.
- Vegna langvarandi fjarveru Elínar Jónu Þorsteinsdóttur landsliðsmarkvarðar hefur danska úrvalsdeildarliðið Ringkøbing Håndbold samið við sænska markvörðinn Linnea Björkman til eins árs. Björkman kemur frá Skuru IK. Eins og kom fram á handbolti.is í byrjun júní verður Elín Jóna frá keppni í sex til átta mánuði vegna aðgerðar á mjöðm sem hún gekkst undir vegna meiðsla sem hún varð fyrir í viðureign Íslands og Svíþjóðar í undankeppni EM síðla í apríl.
- Auglýsing -