„Þátttakan í mótinu var mikið ævintýri og árangurinn kom okkur á óvart,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir ein af liðsmönnum U18 ára landsliðs kvenna sem sló í gegn og vakti þjóðarathygli með frábærri frammistöðu á heimsmeistaramótinu sem lauk í Skopje í síðustu viku.
Elín Klara og félagar höfnuðu í áttunda sæti eftir að hafa verið hársbreidd frá þátttöku í undanúrslitum en þær töpuðu með eins marks mun fyrir Hollandi í leik um sæti í undanúrslitum.
Íslenska liðinu var óvænt boðin þátttaka í mótinu í lok maí þegar uppstokkun varð á meðal þátttökuliða þegar Rússar voru m.a. strikaðir út af lista þátttökuþjóða. Ísland var fyrsta varaþjóð eftir að hafa verið í öðru sæti í B-hluta EM í fyrrasumar og einnig í forkeppni HM í Serbíu í nóvember.
Mjög góð liðsheild
„Okkar markmið fyrir mótið var að gera eins vel og gátum. Við höfðum fulla trú á að við gætum veitt öllum andstæðingum okkar verðuga keppni þótt margir þeirra væru taldir sterkari en við. Liðsheildin var frábær, allir lögðu sitt af mörkum. Það skilaði í sér í svakalega góðum árangri,“ sagði Elín Klara þegar handbolti.is sló á þráðinn til hennar í gær. Hún var þá nýkomin til landsins með fjölskyldu sinni eftir nokkurra daga frí í kjölfar mótsins.
U18 ára landsliðið: Ethel Gyða Bjarnasen, HK. Ingunn María Brynjarsdóttir, Fram. Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, HK. Brynja Katrín Benediktsdóttir, Val. Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukum. Elísa Elíasdóttir, ÍBV. Embla Steindórsdóttir, HK. Hildur Lilja Jónsdóttir, KA/Þór. Inga Dís Jóhannsdóttir, HK. Katrín Anna Ásmundsdóttir, Gróttu. Lilja Ágústsdóttir, Val. Rakel Oddný Guðmundsdóttir, Haukum. Sara Dröfn Richardsdóttir, ÍBV. Sonja Lind Sigsteinsdóttir, Haukum. Thelma Melsteð Björgvinsdóttir, Haukum. Tinna Sigurrós Traustadóttir, Selfossi.
Þekkjumst vel
„Við þekkjumst orðið mjög vel eftir að hafa æft og leikið mikið saman síðasta árið. Það skilaði sér í afar góðri liðsheild og samstöðu enda eru við allar mjög metnaðargjarnar í handboltnum, viljum leggja okkur fram bæði á æfingum og í leikjum,“ sagði Elín Klara og rifjar upp á nánast sami hópur hafi tekið þátt í B-hluta Evrópumótsins fyrir ári auk þátttöku í móti í Serbíu og vináttuleikja við Dani og Færeyinga. Saman hafi hópurinn eflst af reynslu, ekki síst af þátttöku í forkeppni HM í Serbíu.
Vandaður undirbúningur
Elin Klara segir undirbúning fyrir hvern leik hafi verið mjög góður. Farið hafi verið yfir leik andstæðinganna hverju sinni á tveimur vídeofundum. Þar af leiðandi hafi þær þekkt vel leik andstæðinganna, jafnt í vörn sem sókn og getað brugðist vel við. „Við erum orðnar betri í að meðtaka það sem farið er yfir á fundunum þannig að þegar komið er inn í leikina þá vitum við í stórum dráttum vel hvernig andstæðingurinn leikur,“ sagði Elín Klara sem finnur fyrir talsverðum mun á leik liðanna á HM samanborið við liðin sem hún hefur leikið gegn hér heima.
Ákveðnari varnareikur
„Varnarleikur liðanna úti er mikið agresívari en við eigum að venjast hér heima, bakverðirnir leika framar en við þekkjum. Þessu þarf maður að venjast og fær góða reynslu af.“
Gott teymi með okkur
Íslenska landsliðið lék átta leiki á 12 dögum. Keyrslan var þar af leiðandi töluverð og mikið meiri en flestir leikmenn liðsins hafa reynslu af, nema þá helst frá þátttöku á stórmótum. Elín Klara viðurkennir að þreytan hafi verið farin að segja til sín þegar á mótið leið. Þorvaldur Skúli Pálsson sjúkraþjálfari liðsins gætti þess að leikmenn sinntu vel endurheimt. „Það var haldið mjög vel utan um okkur af teyminu sem var með auk þess sem allir leikmenn voru mjög viljugir að fara eftir öllum fyrirmælum til að vera klár í næsta leik.“
Getum unnið alla á góðum degi
Frábær árangur íslenska liðsins á HM hefur mjög hvetjandi áhrif á alla leikmenn til að halda áfram og leggja hart að sér við æfingar. „Við lékum á móti frábærum liðum eins og til dæmis Frökkum, Hollendingum, Svíum og Svartfellingum, sem alltaf eru í allra fremstu röð í heiminum og komust að því að við eigum í fullu tré við þau lið og getum unnið öll á góðum degi. Það var gaman að sjá hvar við stöndum í dag í samanburði við þessu lið.
Árangurinn virkar hvetjandi á okkur allar til að halda áfram að æfa vel og leggja mikið í handboltann,“ sagði Elín Klara.
Langar að ná ennþá lengra
„Hópurinn er mjög metnaðarfullur, allar leggja sig hundrað prósent fram á hverri æfingu eins og til dæmis fyrir þetta mót. Einbeitingin er góð og allar viljum við gera vel.
Nú langar okkur að gera ennþá betur og mæta sterkari til leiks á næsta mót sem verður vonandi næsta sumar. Kannski fáum við einhverja æfingaleiki í sumar.
Hópurinn er góður. Mikil vinátta ríkir og liðsandinn er frábær sem smitast út í leik okkar. Maður kemur í manns stað. Allt skilar þetta okkur langt,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir leikmaður Hauka sem verður á fullri ferð með liði sínu í Olísdeildinni á komandi vetri eins og aðrir leikmenn U18 ára landsliðsins sem dreifast á hin ýmsu lið deildinnar.