Afturelding lagði Selfoss í upphafsleik Ragnarsmótsins í handknattleik karla í Sethöllinni í kvöld, 34:32. Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 15:15.
Leikmenn Selfoss áttu þess kost að jafna metin nokkrum sinnum á síðustu þremur mínútum leiksins en allt kom fyrir ekki og Birkir Benediktsson innsiglaði sigur Mosfellinga þegar um 10 sekúndur voru eftir af leiktímanum. Þá var Aftureldingarliðið manni færra eftir að Bergvin Þór Gíslason fékk beint rautt spjald nærri mínútu fyrir leikslok vegna brots á markahæsta leikmanni Selfoss, Ísaki Gústafssyni.
Fyrrgreindur Ísak skoraði 13 mörk í leiknum. Hann lék allan leikinn í hægri skyttustöðunn hjá Selfossliðinu sem lék m.a. án Ragnars Jóhannssonar sem sat við ritaraborðið í leiknum eftir því sem næst verður komist.
Mörk Selfoss: Ísak Gústafsson 13, Guðjón Baldur Ómarsson 7, Guðmundur Hólmar Helgason 5, Richard Sæþór Sigurðsson 2, Atli Ævar Ingólfsson 1, Einar Sverrisson 1, Haukur Páll Hallgrímsson 1, Karolis Stropus 1, Alexander Hrafnkelsson 1.
Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 10, Þorsteinn Leó Gunnarsson 9, Birkir Benediktsson 4, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 4, Bergvin Þór Gíslason 3, Blær Hinriksson 2, Böðvar Páll Ásgeirsson 1, Einar Ingi Hrafnsson 1.
Keppni heldur áfram á Ragnarsmótinu á morgun þegar ÍBV og Fram mætast í Sethöllini á Selfossi klukkan 17.45.
Nánar má sjá dagskrá Ragnarsmótsins hér.