- Auglýsing -
Vinstri hornamaðurinn Jakob Martin Ásgeirsson hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild FH. Jakob Martin er uppalinn í FH og hefur alla tíð spilað í Kaplakrikanum. Hann skoraði 50 mörk í 20 leikjum með FH í Olísdeildinni á síðasta keppnistímabili.
„Jakob Martin er mjög öflugur leikmaður á báðum endum vallarins, virkilega sterkur hraðaupphlaupsmaður og gefur FH-liðinu mikla orku. Það verður gaman að fylgjast með Jakobi Martin í vetur og við væntum mikils af honum enda einn af lykilleikmönnum liðsins,“ segir Sigurgeir Árni Ægisson, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar FH í tilkynningu sem deildin sendi frá sér af þessu tilefni.
Jakob Martin mætir væntanlega galvaskur til leiks með samherjum sínum í FH þegar Hafnarfjarðarmótið hefst í næstu viku.
Fyrsti leikur FH-inga í Olísdeildinni á nýju keppnistímabili verður í Kaplakrika gegn Stjörnunni fimmtudaginn 8. september.
- Auglýsing -