- Auglýsing -
Hörður frá Ísafirði gerði sér lítið fyrir og lagði KA í viðureign um fimmta sætið á Ragnarsmótinu í handknattleik karla í Sethöllinni á Selfossi, 34:31. Harðarmenn voru mikið öflugri á endaspretti leiksins. Þeir voru fjórum mörkum undir, 28:24, þegar rúmar ellefu mínútur voru til leiksloka.
KA var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:15, og liðið hafði lengst af tveggja til fjögurra marka forystu framan af síðari hálfleik. Allt þar til Harðarmenn blésu til stórsóknar á lokaspretti leiksins og slógu vopnin úr höndum Akureyringa.
Hörður vann þar með einn af þremur leikjum sínum á mótinu en KA-menn mega bíta í það súra epli að fara með þrjú töp í farteskinu heim til Akureyrar.
Harðarmenn eru greinilega til alls líklegir þegar flautað verður til leiks í Olísdeildinni snemma í september. Þeir sækja ÍBV heim í fyrstu umferð á sama tíma og KA fer á Ásvelli og mætir Haukum.
Mörk KA: Einar Birgir Stefánsson 7, Dagur Gautason 6, Allan Norðberg 5, Gauti Gunnarsson 5, Einar Rafn Eiðsson 4, Ísak Eggertsson 2, Arnór Ísak Haddsson 1, Ragnar Snær Njálsson 1.
Varin skot: Nicholas Satchwell 15.
Mörk Harðar: Jón Ómar Gíslason 10, Sugur Hikawa 7, Miel Amilibia Aristi 5, Þráinn Ágúst Arnaldsson 4, Óli Björn Vilhjálmsson 2, Guntis Pilpuks 2, Endjis Kusners 2, Daníel Wale Adeleye 1, Ásgeir Óli Kristjánsson 1.
Varin skot: Rolands Lebedevs 8, Stefán Freyr Jónsson 7.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
- Auglýsing -