ÍBV stóð uppi sem sigurvegari á Ragnarsmótinu í handknattleik karla sem lauk í Sethöllinni á Selfossi síðdegis í dag. ÍBV vann Aftureldingu örugglega í úrslitaleik, 35:22, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13.
Eyjamenn náðu fljótlega fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik. Muninn tókst Aftureldingarmönnum ekki að vinna upp. Svo fór að ÍBV bætti við forskot sitt á síðasta fjórðungi leiktímans enda voru Aftureldingarmenn búnir að mestu að játa sig sigraða og þjálfarinn, Gunnar Magnússon, farinn að gefa reynsluminni mönnum stærra hlutverk en fyrr í leiknum.
ÍBV lék á tíðum í leiknum mjög góða 5/1 vörn sem Aftureldingarmönnum gekk illa að leysa. Ívar Bessi Viðarsson lék stórt hlutverk sem fremsti maður. Einnig átti Petar Jokanovic stórleik í markinu og gerði Mosfellingum erfitt um vik. Rúnar Kárason lék við hvern sinn fingur í sókninni.
ÍBV-liðið vann allar þrjá viðureignir sína á mótinu á sannfærandi hátt. Breiddin í liðinu er mjög góð og verður spennandi að sjá hvers liðið verður megnugt þegar keppni í Olísdeildinni hefst og ekki síður þegar kemur að Evrópuleikjum í fyrri hluta næsta mánaðar.
Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 6, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 4, Blær Hinriksson 2, Einar Ingi Hrafnsson 2, Sveinn Aron Sveinsson 2, Gestur Ólafur Ingvarsson 2, Nemanja Vukovic 2, Stefán Scheving Th. Guðmundsson 1, Pétur Júníusson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 11.
Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 7, Dánjal Ragnarsson 5, Arnór Viðarsson 4, Dagur Arnarsson 3, Janus Dam Djurhuus 3, Gabríel Martinez Róbertsson 3, Nökkvi Snær Óðinsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 2, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2, Petar Jokanovic 1, Breki Þór Óðinsson 1, Sveinn José Rivera 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 12, Andri Snær Sigmarsson 2.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.