- Auglýsing -
- Kvennalið Vals og karlalið Aftureldingar og Fram fara til Albír á Spáni í dag. Þar verða þau í viku í Albír við æfingar og keppni áður Íslandsmótið í handknattleik hefst í Olísdeildum kvenna og karla í fyrri hluta næsta mánaðar.
- Þorsteinn Leó Gunnarsson, stórskytta Aftureldingar, leikur vart með liðinu í upphafsleikjum Olísdeildarinnar. Þorsteinn Leó brákaði rifbein í viðureign við KA á fimmtudaginn á Ragnarsmótinu eftir að hafa lent í samstuði við Ragnar Snæ Njálsson.
- Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði sex mörk, þar af eitt úr vítakasti, og Janus Daði Smárason skoraði eitt mark er lið þeirra, Kolstad, vann smáliðið Tiller, 41:15, í annarri umferð norsku bikarkeppninnar í gær.
- Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði þrjú mörk og Ásdís Guðmundsdóttir eitt í níu marka sigri Skara HF á Kungsängens SK, 34:25, í annarri umferð 6. riðils sænsku bikarkeppninnar í gærkvöld. Skara HF hefur unnið báða leiki sína til þessa og blasir sæti í 16-liða úrslitum við liðinu.
- Ásgeir Snær Viðarsson skoraði tvisvar fyrir Helsingborg í þriggja marka tapi fyrir HF Karlskrona, 35:32, á útivelli í 3. umferð 6. riðils sænsku bikarkeppninnar í karlaflokki í gær. Helsingborg er þar með úr leik, öðlast ekki sæti í 16-liða úrslitum.
- Lovísa Thompson var ekki á meðal markaskorara Ringkøbing þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Silkeborg-Voel, 33:27, í dönsku bikarkeppninni, 16-liða úrslitum, í gær. Leikurinn fór fram í Ringkøbing.
- Steinunn Hansdóttir skoraði tvö mörk fyrir Skanderborg í fimm marka tapi á heimavelli fyrir Nykøbing Falster, 32:27, í 16-liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar. Annika Friðheim Pedersen fyrrverandi markvörður Hauka leikur með Nykøbing Falster sem er komið í átta liða úrslit.
- Auglýsing -