- Auglýsing -
- Ólafur Örn Ólafsson hefur verið ráðinn styrktarþjálfari yngri flokka (3., 4. og 5. flokka) Stjörnunnar í handknattleik. „Ólafur hefur starfað sem einkaþjálfari síðan 2006 og hefur komið víða við á sínum ferli, allt frá íþróttaskóla Latabæjar til Crossfit í Kaupmannahöfn og undanfarið sem yfirþjálfari Sporthús Gull í Sporthúsinu Kópavogi. Ólafur hefur hingað til sérhæft sig í styrktarþjálfun fyrir almenna heilsu og langlífi og leggur mikið upp úr fyrirbyggingu meiðsla,“ segir m.a. í tilkynningu handknattleiksdeildar Stjörnunnar í tilefni ráðningar Ólafs Arnar.
- Keppni í úrvalsdeild kvenna í handknattleik hófst í Danmörku í gærkvöld og það svo sannarlega með óvæntum úrslitum. Esbjerg, sem ásamt Odense hefur nánast borið ægishjálm yfir önnur lið í úrvalsdeildinni síðustu ár og lék til undanúrslita í Meistaradeild kvenna í vor, tapaði á heimavelli fyrir Kaupmannahafnarliðinu Ajax, 19:15. Glöggir menn sem rýna í getraunasíður danska kvennahandboltans telja þetta vera óvæntustu úrslit í deildinni í rúm 20 ár.
- Spænski handknattleiksmaðurinn Daniel Sarmiento hefur samið við Wisla Plock í Póllandi til næstu fjögurra mánaða. Sarmiento ætlaði að hætta að leika handknattleik í sumar en varð við tilboði pólska liðsins um að fresta ákvörðun sinni þangað til eftir næstu áramót. Sarmiento hleypur í skarðið meðan að Niko Mindegia og Gergö Fazekas verða fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Plock verður með í Meistaradeild Evrópu í vetur en keppni í deildinni hefst eftir hálfan mánuð.
- Gefið hefur verið sterklega í skyn að Mikkel Hansen leiki með Aalborg strax í fyrsta leik liðsins í dönsku úrvalsdeildinni á laugardaginn þegar liðsmenn Nordsjælland koma í heimsókn. Hansen varð gjaldgengur mað Aalborg í síðustu viku. Hann hefur hinsvegar ekki leikið handknattleik síðan snemma í mars, skömmu áður en hann fékk blóðtappa í annað lungað við aðgerð á hné.
- Fáir standast Egyptum snúning á handboltavellinum þegar litið er til þjóða Afríku. Í sumar varð A-landslið Egyptalands Afríkumeistari og í fyrradag vann U20 ára landslið karla sigur í Afríkukeppninni eftir sigur á liði Alsír í úrslitaleik, 35:15, sem fram fór í Rúanda. Túnis vann Angóla í leik um bronsið. Fjögur lið frá Afríku taka þátt í HM 21 árs landsliða á næsta ári sem haldið verður í Þýskalandi og Grikklandi.
- Evrópumeistarar Barcelona unnu á mánudagskvöldið meistarabikar Katalóníu þegar liðið vann BM Granollers, 44:30, í úrslitaleik. Frakkinn Ludovic Fabregas var markahæstur hjá Barcelona í leiknum með níu mörk.
- Auglýsing -