Svo virðist sem handagangur hafi verið í öskjunni meðal forsvarsmanna félaga og á skrifstofu HSÍ síðustu daga við frágang félagaskipta leikmanna, jafnt milli félaga innanlands og á milli landa. Hugsanlegt er að einhverjir hafi jafnvel vaknað upp við vondan draum með ófrágengin mál rétt fyrir fyrstu leiki Íslandsmótsins. Keppni í Olísdeild karla hefst í kvöld með fjórum leikjum.
Hátt í 40 félagaskipti hafa verið stimpluð hjá HSÍ síðan á mánudaginn eftir því sem fram kemur á félagaskiptasíðu sambandsins. Engu að síður er eitthvað enn ófrágengið þegar félagaskiptasíða HSÍ er lesin saman við samantekt handbolta.is sem birt hefur verið af og til síðustu vikurnar.
Mörg félagaskiptana voru tilkynnt af félögunum fyrir mörgum vikum og jafnvel nokkrum mánuðum. Má þar m.a. nefna komu Jovan Kukobat og Péturs Júníussonar til Aftureldingar, Luka Vikcevic og Marko Coric til Fram, skipti Bergs Elís Rúnarssonar frá FH yfir til Vals. Þau féllu á milli þils og veggjar og varð þess valdandi að hann var ekki gjaldgengur leik Vals og KA í meistarakeppninni á síðasta laugardag.
Hér er hægt sjá hvaða leikmenn eru orðnir löglegir með félagsliðum sínum eftir félagaskipti síðustu vikna – félagaskiptasíða HSÍ.