- Auglýsing -
Hinn reyndi handknattleiksmarkvörður Björn Viðar Björnsson leikur ekki með ÍBV-liðinu á komandi keppnistímabili. Hann staðfesti þetta við handbolta.is í dag en grunur vaknaði um að Björn Viðar hafi rifað seglin þar sem hann hefur ekki tekið þátt í æfingaleikjum ÍBV síðustu vikur, s.s. á Ragnarsmótinu og Hafnarfjarðarmótinu.
Björn Viðar tók fram skóna á nýjan leik snemma árs 2019 og hóf að leika með ÍBV eftir skyndilegt fráfall Kolbeins Arons Arnarsonar. Síðan og fram yfir úrslitaleikina við Val í vor um Íslandsmeistaratitilinn hefur Björn Viðar verið annar af tveimur aðalmarkvörðum ÍBV ásamt Petar Jokanovic og varð bikarmeistari 2020. Björn Viðar framlengdi samning sinn við ÍBV til eins árs í byrjun leiktíðarinnar fyrir ári síðan.
Björn Viðar lék með Haukum upp yngri flokka og upp í meistaraflokk. Hann skipti yfir til Fram og varð m.a. Íslandsmeistari með Fram vorið 2013 áður en hann flutti til Norðurlandanna og bjó í Noregi og Svíþjóð og lék þar með liðum í neðri deildum um skeið áður en hann flutti á ný heim og til Vestmannaeyja 2018.
- Auglýsing -