„Ég er svekktastur yfir hversu fljótir menn voru að grafa sig niður í byrjun síðari hálfleiks þegar illa gekk um tíma. Eftir jafna stöðu í hálfleik þá komumst við tveimur mörkum yfir í byrjun síðari hálfleiks
. Þá kom stuttur kafli þar sem Haukar skoruðu sex mörk í röð. Mögulega áttum við Sverre að grípa fyrr inn í og taka leikhlé,“ sagði Guðlaugur Arnarsson einn þjálfara KA í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir sex marka tap KA fyrir Haukum á Ásvöllum, 27:21, í fyrstu umferð Olísdeildar karla.
Eftir leikkaflann þegar Haukar skoruðu sex mörk í röð var eins og KA-liðið ætti ekki leið til baka inn í leikinn. „Ég er vonsvikinn með þennan kafla,“ sagði Guðlaugur.
Töpuðum boltanum klaufalega
„Framan af fyrri hálfleik var sóknarleikur okkar fínn en eftir um tuttugu mínútna leik þá misstum við dampinn og töpuðum boltanum hvað eftir annað klaufalega sem varð þess valdandi að Haukar skoruðu nokkur mjög auðveld mörk í bakið á okkur,“ sagði Guðlaugur og bætti við.
Góður varnarleikur
„Annars var varnarleikur okkar yfir höfuð góður, þegar okkur tókst að stilla upp í vörn. Við hefðum mátt vera með fleiri varin skot en því miður var sóknarleikurinn alltof mistækur lengi vel. Það var okkur aðallega að falli,“ sagði Guðlaugur sem stýrði KA-liðinu í gærkvöld ásamt Sverre Jakobssyni í farjveru Jónatans Þórs Magnússonar.
Engin afsökun
Guðlaugur sagði að mögulega væri KA-liðið á eftir áætlun í undirbúningi fyrir tímabilið þar sem það hafi e.t.v. ekki leikið nógu marga æfingaleiki. „Það er þó ekki afsökun fyrir því hversu auðveldlega við töpuðum boltanum á köflum í þessum leik. Við eigum að gera betur,“ sagði Guðlaugur Arnarsson við handbolta.is á Ásvöllum í gærkvöld.