Fyrstu umferð Olísdeildar kvenna lýkur í dag með tveimur leikjum, öðrum í Vestmannaeyjum og hinum í Kópavogi. Einnig verður í dag leidd til lykta önnur umferð Olísdeildar karla í þegar ÍBV leikur sinn fyrsta leik í deildinni á tímabilinu þegar Eyjamenn sækja KA heim til Akureyrar.
Talsverð eftirvænting ríkir í Vestmannaeyjum fyrir fyrsta heimaleik tímabilsins í Olísdeild kvenna. KA/Þór sækir þá ÍBV-liðið heim en liðin hafa marga hildi háð undanfarin ár. Flautað verður til leiks klukkan 13.30 og stendur til að sýna leikinn á ÍBVtv. Birna Berg Haraldsdóttir snýr til baka í lið ÍBV eftir að hafa misst af öllu keppnistímabilinu í Olísdeildinni í fyrra vegna meiðsla.
KA/Þórsliðið hefur tekið talsverðum mannabreytingum á milli keppnistímabila og verður spennandi að sjá hvernig breytt lið mætir til leiks í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum.
Síðasti leikur 1. umferðar Olísdeildar kvenna verður á milli HK og nýliða Selfoss. Flautað verður til leiks í Kórnum í Kópavogi klukkan 18. Um er að ræða fyrsta leik Selfossliðsins í Olísdeild kvenna í fjögur ár.
Leikir dagsins
Olísdeild kvenna:
Vestmannaeyjar: ÍBV – KA/Þór kl. 13.30 – sýndur á ÍBVtv.
Kórinn: HK – Selfoss, kl. 18 – sýndur á Stöð2sport.
Staðan og leikjadagskrá í Olísdeildum.
Olísdeild karla:
KA-heimilið: KA – ÍBV, kl. 16.30 – sýndur á Stöð2sport.
Handbolti.is fylgist með leikjum dagsins eftir bestu föngum.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.