- Auglýsing -
- Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði tvö mörk í gærkvöld þegar lið hans Vive Kielce vann Wisla Plock, 31:19, í uppgjöri liðanna sem hafa verið þau tvö bestu á undanförnum árum í pólsku úrvalsdeildinni. Andreas Wolff, markvörður Kielce, átti stórleik og var með 54% hlutfallsmarkvörslu.
- Kielce er með fullt hús stiga í deildinni eftir 10 leiki. Azoty-Pulawy er í öðru sæti með einn tapaðan leik í níu viðureignum. Wisla Plock tapað í gær öðrum leik sínum í deildinni á leiktíðinni. Liðið hefur hinsvegar aðeins leikið átta sinnum. Vegna kórónuveirunnar hefur leikjadagskráin í pólsku úrvalsdeildinni farið verulega úr skorðum.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson lék ekki með Skövde í gær þegar liðið tapaði á útivelli fyrir næst neðsta liði sænsku úrvalsdeildarinnar, Varberg, 28:26, á heimavelli Varberg. Eins og kom fram á handbolti.is á fimmtudaginn þá tognaði Bjarni Ófeigur á nára á dögunum. Hann verður væntanlega ekki lengi frá þar sem ekki um mikla tognun var að ræða en á móti kemur að náratognanir eru alltaf erfiðar viðfangs.
- Sænski línumaðurinn Anton Lindskog er sagður yfirgefa Wetzlar við lok leiktíðar í vor og ganga til liðs við Flensburg.
- Norski landsliðsmaðurinn Magnus Gullerud er meiddur á baki og verður vart með norska landsliðinu á HM í Egyptalandi í janúar. Gullerud er leikmaður SC Magdeburg.
- Furðulegur handboltaleikur átti sér stað í næst efstu deild sænska karlahandboltans í gær þegar Rimbo vann Anderstrops, 45:41. Varnarleikur og markvarsla hafa væntanlega verið látin lönd og leið.
- Auglýsing -