- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Get ekki endalaust tekið eitt ár í viðbót“

Martha Hermannsdóttir fagnar með félögum sínum í KA/Þór eftir að hafa tekið við Íslandsbikarnum vorið 2021. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Þegar ég fékk fimmtu sterasprautuna í mjöðmina í vor sagði læknirinn að sennilega væri kominn tími hjá mér til þess að hætta í handboltanum,“ sagði Martha Hermannsdóttir hin þrautreynda handknattleikskona á Akureyri sem ákvað fyrir nokkru að leggja handboltaskóna á hilluna eftir að hafa leikið í meistaraflokki nærri í aldarfjórðung, lengst af með KA/Þór og KA.

Var ekki alveg viss í vor

„Ég var ekki alveg viss í vor þegar keppnistímabilinu lauk en fann það hinsvegar þegar við áttum að byrja aftur í sumar að sennilega væri bara rétt að setja punktinn aftan við handboltaferilinn. Ég get ekki endalaust tekið eitt ár í viðbót. Ég var orðinn mjög slæm í skrokknum í fyrravetur, var nokkuð frá vegna meiðsla enda eru mikil átök í handboltanum og ég búin að vera lengi að,“ sagði Martha þegar handbolti.is sló á þráðinn til hennar í vikunni.

Martha er 38 ára gömul og er tannlæknir á Tannlæknastofu Akureyrar sem hún á og rekur í félagi við fleiri tannlækna. Hún er gift Heimi Erni Árnasyni forseta bæjarstjórnar á Akureyri. Þau eiga þrjú börn, 7, 10 og 15 ára.

Mætir enn á lyftingaæfingar

„Andri Snær [Stefánsson] þjálfari hefur ekki alveg gefið upp vonina um að ég mæti aftur eftir áramót eða í úrslitakeppnina. En ég held að það sé bara nóg komið,“ sagði Martha sem mætir þó einu sinni í viku á lyftingaæfingar með stelpunum í meistaraflokki. Einnig miðlar Martha af reynslu sinni og þekkingu til stúlkna í sjötta flokki þar sem dóttir hennar er á meðal iðkenda. „Mér finnst gaman að vera byrjuð að þjálfa aftur. Ég hef ekkert sinnt þjálfun síðan ég var yngri, ekki haft tíma til þess. Það er mjög gaman að þjálfa tíu og ellefu ára stelpur.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Katrín Vilhjálmsdóttir og Martha Hermannsdóttir, Íslandsmeistarar með KA/Þór 2021. Mynd/Ívar


Svo verð ég eitthvað í kringum KA/Þórsliðið í heimaleikjum, í stjórninni og eitthvað fleiri. Ég á alveg örugglega ekki eftir að sitja auðum höndum,“ segir Martha sem er að gæla við að takast á við svokallað landvættaprógramm sem mjög hefur verið í móð að gera atlögu að.

Æfir með vinkonunum

„Þegar ég var að leggja drög að því að hætta í sumar þá vildu vinkonurnar fá mig með í eitthvað, að við gerðum eitthvað saman. Þegar maður hættir í handboltanum þá saknar maður félagsskapsins við æfingarnar og þá er kjörið að drífa sig af stað með vinkonum í eitthvað í þessa veruna. Við stefnum á keppni á næsta ári.“

Martha var valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar vorið 2021. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Með í Evrópukeppni

Martha segir að á löngum og skemmtilegum ferli þá standi keppnistímabilið 2020/2021 upp úr. Veturinn 2021 vann KA/Þór alla titla sem í boði voru og hóf síðan tímabilið haustið 2021 með sigri í bikarkeppninni. Liðið hafi þar með verið handhafi allra titla sem í boði voru hér á landi. Í framhaldi hafi hún tekið þátt í Evrópukeppni með KA/Þórsliðinu í fyrsta sinn.

Sveif um á bleiku skýi

„Vorið 2021 hefði verið tilvalið að hætta en þegar á reyndi þá gat ég það ekki þar sem ég sveif um á mínu bleika skýi. Tók eitt tímabil í viðbót en var orðin ansi hreint þreytt í vor eftir langt og strangt tímabil með mjög mörgum leikjum. Keyrslan var svakaleg og tímabilið var það erfiðasta á ferlinum, leikirnir hjá KA/Þór voru 42 með tilheyrandi ferðalögum innan lands og utan,“ sagði Martha sem sér ekki eftir einni mínútu af þeim tíma sem hefur farið í æfingar og keppni frá unga aldri.

„Mér finnst geggjað að hafa náð þremur landsleikjum á gamalsaldri. Ég kunni mjög að meta það og er þakklát fyrir,“ sagði Marta sem var með landsliðinu í forkeppni HM í þremur leikjum í Skopje í Norður Makedóníu í síðla árs 2018. Hún skoraði tvö mörk. Martha varð bikarmeistari með Haukum 2006 þegar hún var fyrir sunnan við tannlæknanám.

Fórnir voru þess virði

„Vissulega hefur maður þurft að fórna ýmsu fyrir handboltann í gegnum tíðina en þegar maður lítur til baka þá eru mörg stærstu augnablikin tengd handboltanum. Allar fórnirnar hafa verið fullkomlega þess virði,“ segir hin jákvæða en önnum kafna Martha Hermannsdóttir.

handbolti.is nýtur ekki opin­bers rekstr­­ar­­stuðn­­ings.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -