- Auglýsing -
- Einar Ingi Hrafnsson leikmaður Aftureldingar og Sveinn Brynjar Agnarsson leikmaður ÍR sluppu með áminningu á fundi aganefndar HSÍ á þriðjudaginn Báðir fengu þeir rautt spjald fyrir grófan leik í leikjum annarrar umferðar Olísdeildar karla. Dómarar mátu brot beggja falla undir reglu 8.5, b. Athygli Einars Inga og Sveins Brynjars var vakin á stighækkandi áhrifum útilokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.
- Gróft brot Robertu Strope á Valgerði Ýri Þorsteinsdóttur leikmanni HK í viðureign HK og Selfoss í 1. umferð Olísdeildar kvenna á síðasta laugardag kom ekki til kasta aganefndar til ákvörðunar. Ástæðan er sú að Strope var ekki gerð þyngri refsing en tvær mínútur fyrir brotið. Valgerður Ýr var borin af leikvelli og flutt undir læknishendur.
- Afturelding hefur samið við Rebecca Fredrika Adolfsson eftir því sem fram kemur á félagaskiptasíðu HSÍ. Adolfsson sem er 22 ára gömul er markvörður frá Finnlandi. Hún hyggst standa á milli stanganna í marki Aftureldingar í Grill66-deildinni sem hefst á föstudaginn. Adolfsson hefur leikið með PIF í heimalandinu og á að baki leiki með U17 og U19 ára landsliði Finna. Hún hefur fengið leikheimild hér á landi.
- Íslendingaliðin Holstebro og Skjern gerðu jafntefli í hnífjöfnum spennuleik, 26:26, á heimavelli Holstebro í gær í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Skjern jafnaði metin þegar hálf mínúta var eftir. Holstebro átti stangarskot á síðustu sekúndu. Sveinn Jóhannsson var í leikmannahópi Skjern en skoraði ekki. Halldór Jóhann Sigfússon er aðstoðarþjálfari Holstebro. Skjern er í fjórða sæti deildarinnar með sex stig eftir fimm leiki. Holstebro er einu stigi á eftir.
- Steinunn Hansdóttir skoraði eitt mark fyrir Skanderborg Håndbold í sjö marka tapi á heimavelli fyrir Esbjerg, 33:26, í dönsku úrvalsdeildinni. Skanderborgliðið hefur á brattann að sækja og er með eitt stig að loknum fimm leikjum.
- Júlíus Flosason, Marteinn Sverrir Ingibjargarson og Einar Gunnar Guðjónsson hafa allir skrifað undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild HK. Júlíus og Einar Gunnar eru HK-ingar í húð og hár en Marteinn Sverrir kom til félagsins frá Fram í sumar eftir að hafa verið lánsmaður Fram í herbúðum HK á síðasta tímabili.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.
- Auglýsing -