- Auglýsing -
Bjarki Már Elísson er óðum að sækja í sig veðrið eftir að hafa átt í meiðslum fyrr í þessum mánuði og misst af nokkrum leikjum með ungverska stórliðinu Veszprém. Hann lét sitt ekki eftir liggja í dag þegar Veszprém vann Tatabánya með tíu marka mun í miklum markaleik á heimavelli, 42:32.
Bjarki Már skorað 10 mörk í 11 skotum og var markahæstur liðsmanna Veszprém sem eru í öðru sæti ungversku 1. deildarinnar með sex stig að loknum þremur leikjum. Meistarar Pick Szeged eru efstir með átta stig en hafa lokið einum leik fleira en Veszrprém en liðin tvö hafa einokað ungverska meistaratitilinn í tvo áratugi eða svo.
Hið fornfræga lið Tatabánya hefur sótt í sig veðrið undanfarin tvö ár og var m.a. taplaust fyrir leikinn við Veszprém í dag.
Næsti leikur Bjarka Más og félaga í ungversku deildinni verður við Gyongyosi á heimavelli á laugardaginn. Í millitíðinni tekur Veszprém á móti rúmensku meisturunum Dinamo frá Búkarest í þriðju umferð Meistaradeildar Evrópu á miðvikudagskvöld.
- Auglýsing -