- Auglýsing -
- Færeyingurinn Jonn Rói Tórfinnsson hefur fengið leikheimild með Þór Akureyri. Hún var ekki fyrir hendi þegar Þór mætti Fjölni í 1. umferð Grill66-deildar á föstudaginn var.
- Tórfinnsson getur þar með leikið með Þór þegar Akureyrarliðið sækir Kórdrengi heim á Ásvelli á sunnudaginn. Norður Makedóníumaðurinn Kostadin Petrov, sem einnig samdi við Þór í sumar, hefur ekki enn fengið leikheimild vegna þess að umsókn hans um atvinnuleyfi hefur ekki verið samþykkt.
- Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir og Katrín Vilhjálmsdóttir framlengdu nýverið samninga sína við KA/Þór. Katrín er komin á fullt eftir að hafa verið talsvert fjarverandi síðustu tvö tímabil.
- Færeyski handknattleiksmaðurinn efnilegi, Elias Ellefsen á Skipagötu, er meiddur á hné og leikur væntanlega ekki aftur með sænska liðinu Sävehof fyrr en í febrúar, eftir því sem fram kom í Aftonbladet í gær. Ellefsen samdi fyrir nokkru síðan við THW Kiel og verður liðsmaður þýska stórliðsins frá og með næsta sumri.
- Töluvert hefur verið um meiðsli í herbúðum Sävehof síðustu vikur. Með liðinu leikur m.a. Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson. Sävehof mætir Montpellier í kvöld í fyrri viðureign liðanna í 2. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar.
- Sven Ehrig leikmaður THW Kiel og þýska landsliðsins eru úr leik það sem eftir er leiktíðar vegna slæmra hnémeiðsla.
- Í nóvember stendur Handknattleikssamband Evrópu, EHF, fyrir Evrópumóti í hjólastólahandbolta í fyrsta sinn. Mótið verður með svipuðu sniði og heimsmeistaramótið sem Alþjóða handknattleikssambandið stóð fyrir í Kairó og lauk á laugardaginn. EHF samþykkti einnig á fundi framkvæmdastjórnar um síðustu helgi að vinna að því ásamt IHF að hjólastólahandknattleikur verði í náinni framtíð keppnisgrein á Ólympíumóti fatlaðra.
- Auglýsing -