Hollendingar unnu stóran sigur á Rúmenum, 35:24, í lokaleik þjóðanna í millriðlakeppni EM kvenna í handknattleik í dag. Á sama tíma skildu Svartfellingar og Spánverjar jafnir í hinum milliriðli keppninnar. Ekkert liðanna fjögurra á lengur möguleika á að ná inn í undanúrslit. Hollendingar halda í vonina um að leika um fimmta sæti mótsins sem yrði örlítil sárabót fyrir heimsmeistarana sem hafa átt æði misjafna leiki á mótinu.
Til þess að Hollendingar eigi möguleika á að leika um 5. sæti mótsins þarf þýska landsliðið að tapa fyrir króatíska landsliðinu í kvöld. Flautað verður til þess leiks klukkan 17.15. í Sydbank Arena í Kolding.
Hollendingar réðu ferðinni frá upphafi til enda gegn Rúmenum. Þeir voru fjórum mörkum í hálfleik, 16:12. Rúmenar virtust hafa misst móðinn og m.a. kom Cristina Neagu ekkert við sögu.
Leikur Svartfellinga og Spánar skiptist í tvennt. Spánverjar voru sex mörkum yfir í hálfleik, 17:11. Svartfellingar sneru taflinu við í síðari hálfleik og skoruðu fimmtán mörk gegn níu spænskum mörkum.
Mörk Svartfjallalands: Jovanka Radisevic 7, Durdina Jaukovic 5, Majda Mehmedovic 4, Jelena Despotovic 4, Itana Grbic 4, Bobana Klikovac 2. Varin skot: Ljubica Nenezic 12, Marta Batinovic 1.
Mörk Spánar: Nerea Pena 6, Jennifer Gitierrez 4, Ainhoa Hernandez 3, Carmen Martín 2, Carmen Campos 2, Lara Gonzalez 2, Soledad Lopez 2, Almudena Rodriguez 2, Mireya Gonzalez 2, Marta Lopez 1.
Varin skot: Silvia Navarro 10.
Mörk Hollands: Bo van Wetering 8, Laura van der Heijden 4, Debbie Bont 4, Lois Abbingh 3, Kelly Dulfer 3, Inger Smits 3, Dione Househeer 3, Angela Malenstein 2, Martine Smeets 2, Danick Snelder 1, Merel Freriks 1, Harma van Kreij 1.
Varin skot: Tess Wester 11.
Mörk Rúmeníu: Cristina Lazlo 7, Anca Polocoser 6, Elena Dinca 2, Ana Ticu 2, Eliza Buceschi 1, Andreea Popa 1, Laura Popa 1, Sonia Seraficeanu 1, Ana Iuganu 1, Ana Savu 1, Alexandra Dindiligan 1.
Varin skot: Ana Mazareanu 7, Julia Dumanska 3.