- Auglýsing -
Bjarki Már Elísson og félagar í ungverska liðinu Veszprém halda áfram að safna sigurleikjum í sarpinn í deildinni heima fyrir. Í gær unnu þeir Gyöngyös með níu marka mun á heimavelli, 39:30, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 20:16.
Bjarki Már skoraði fjögur mörk í leiknum en annars dreifist markaskorið mjög á milli leikmanna liðsins enda er álaginu dreift talsvert á milli leikmanna liðsins í deildarleikjunum sem flestir eru liðinu frekar auðveldir.
Pick Szeged og Veszprém eru taplaus í deildinni. Meistarar Szeged hafa leikið fimm sinnum en Veszprém í fjögur skipti. Tatabánya, sem Veszprém vann örugglega um síðustu helgi, er í öðru sæti með átta stig eftir fimm leiki.
Næsti leikur Veszprém verður á Fjóni í Danmörku á miðvikudaginn. Þar mætir Veszprém dönsku meisturunum GOG í fjórðu umferð riðlakeppni Meistaradeildar. Veszprém er einnig taplaust í Meistaradeildinni.
- Auglýsing -