- Auglýsing -
- Norska handknattleiksstjarnan Sander Sagosen gerir sér ennþá góðar vonir um að leika með norska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem fram fer í janúar í Póllandi og Svíþjóð. Sagosen meiddist illa á ökkla undir lok keppnistímabilsins og hefur síðan verið í kapphlaupi við tímann í endurhæfingu og gengist undir tvær aðgerðir snemma í bataferlinu.
- Heimsmeistarar Dana í handknattleik karla mæta landsliði Sádi Arabíu í tveimur vináttuleikjum, 5. og 7. janúar, skömmu áður en heimsmeistaramótið hefst í Svíþjóð og Póllandi. Daninn Jan Pytlick þjálfar landslið Sádi Arabíu og olli ráðning hans í vetur nokkru uppnámi á meðal danskra handknattleiksáhugamanna.
- Danska handknattleikssambandið sagði í yfirlýsingu í gær að ákveðið hafi verið að mæta Sádi Arabíu vegna þess að danska landsliðið verður í riðli með Barein og Túnis á HM. Ekki er minnst á Pytlick sem var um árabil þjálfari danska kvennalandsliðsins.
- Emil Kheri Imsgard markvörður Elverum í Noregi og samherji Orra Freys Þorkelssonar hefur samið við ungversku meistarana Pick Szeged frá og með næsta sumri.
- Danski landsliðsmaðurinn Anders Zachariassen meiddist alvarlega á hné á dögunum og verður frá keppni næstu mánuðina. Þetta er töluvert áfall fyrir GOG og danska landsliðið.
- Auglýsing -