- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ætlum ekki að verða farþegar í keppninni

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Mynd/Björgvin Franz
- Auglýsing -

„Mér líst vel mótherjana og sé ekki betur en að við höfum fengið allan pakkann,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í morgun eftir að dregið var í riðla Evrópudeildarinnar í handknattleik.


„Við sjáum fram á skemmtilegar hópferðir, söluvæna leiki og vonandi getum við strítt einhverjum liðum og náð stigum. Markmiðið er að komast upp úr riðlinum. Það kann að vera of háleitt markmið en við ætlum okkur ekki að vera með í keppninni til þess að vera farþegar. Stefna okkar er að ná árangri,” sagði Snorri Steinn ákveðinn.

Allra best að standa í lappirnar

„Það er eitt að taka þátt í keppni sem þessari, sem út af fyrir sig er skemmtilegt, en allra best er að geta staðið í lappirnar og náð árangri. Um það snýst málið fyrir okkur, leikmenn, þjálfara og þá sem standa að liðinu.“

Riðlaskiptingin er þessi:
A-riðill: Benfica, Kadetten, Tatran Presov, Göppingen, Montpellier, Fejér-B.A.L. Veszprém.
B-riðill: PAUC , Ystads IF HF, Valur, Flensburg, Benidorm, Ferencváros (FTC).
C-riðill: Skjern, Granolles, Balatonfüredi KSE, Sporting, RK Nexe, ALPLA HC Hard.
D-riðill: Füchse Berlin, HC Eurofarm Pelister, HC Motor, Bidasoa, Skanderborg-Aarhus, Aguas Santas Milaneza.
Að riðlakeppninni lokinni 28. febrúar fara fjögur efstu lið hvers riðilsins áfram í 16-liða úrslit.

Ekki komist hjá sterkum andstæðingum

Þótt allir andstæðingarnir séu mjög öflugur má reikna með að fyrirfram séu þýska liðið Flensburg og PAUC frá Frakklandi tvö sterkustu lið riðilsins. Snorri Steinn sagði ljóst að ekki hafi verið hægt að komast hjá að mæta mjög sterkum liðum þótt hann áliti öll liðin fimm sem Valur á eftir að mæta vera afar öflug þótt vissulega sé einhver munur á.

Dúndurgott lið á stórkostlegum stað

„Franska deildin er sú næst besta í Evrópu og PAUC hafnaði í þriðja sæti í deildinni í vor á eftir PSG og Nantes sem leika í Meistaradeildinni. PAUC er með dúndurgott lið á stórkostlegum stað í Frakklandi. Ef ég ætti að velja að fara með í eina ferð með Val út þá myndi ég alltaf velja leikinn í Aix,“ sagði Snorri Steinn sem þekkir afar vel til í Frakklandi eftir að hafa búið þar um árabil meðan hann var atvinnumaður í handknattleik með frönskum félagsliðum.

Snillingur með Ferencváros

Ferencváros frá Búdapest er einnig með afar skemmtilegt og vaxandi lið. Meðal leikmanna er snillingurinn Máté Lékai sem verið hefur lykilmaður í ungverska landsliðinu um árabil. „Ferencváros er með hörkulið. Ég hef aðeins skoðað leik liðsins. Ungversk lið eru alltaf góð og henta okkur oft og tíðum ekki vel.“

Óstaðfest leikjadagskrá:
25. október: Valur - PAUC.
1. nóvember: Bendidorm - Valur.
22. nóvember: Valur - Ystads IF HF.
29. nóvember: Flensburg - Valur.
6. desember: Ferencváros - Valur.
13. desember: Valur - Ferencváros. 
7. febrúar: PAUC - Valur.
14. febrúar: Valur - Benidorm.
21. febrúar: Valur - Flensburg.
28. febrúar: Ystads IF HF - Valur.

Óhæddur við leikstílinn

Snorri Steinn segist óhræddur við að tefla fram leikstíl Valsliðsins gegn liðinum fimm í keppninni. „Ég vil sjá hvar við stöndum gegn liðum í þessum gæðaflokki. Kostur við að taka þátt í Evrópukeppni umfram deildina hér heima er sú að pressan er ekki eins mikil að vinna Evrópukeppnina. Forsendurnar eru aðrar.

Fyllum húsið á heimaleikjum

Þegar öllu er á botninn hvolft verðum við öll innan Vals að sameinast um að standa vel að þessu. Krafan um umgjörð leikjanna er mikil og við eigum að stefna á að fylla húsið okkar á öllum heimaleikjunum fimm. Vonandi er handboltinn á Íslandi spenntur fyrir þessu og gera þetta að ógleymanlegu ævintýri,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals í samtali við handbolta.is í morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -