- Auglýsing -
Stefan Madsen, þjálfari danska handknattleiksliðsins Aalborg Håndbold, segir í samtali við Nordjyske í morgun að Aron Pálmarsson hafi ekki meiðst alvarlega í viðureign liðsins við Pick Szeged í Ungverjalandi í gær. Eins kom fram á handbolta.is í gærkvöld varð Aron að yfirgefa völlinn eftir um tíu mínútur og kom ekki aftur til leiks.
„Aron læstist í bakinu,“ segir Madsen við Nodjyske og bætir við að sjúkraþjálfari Álaborgarliðsins hafi strax tekið Aron til meðferðar. Það hafi ekki nægt til þess að Aron gæti tekið meira þátt í leiknum sem Aalborg vann með yfirburðum, 41:29.
„Þótt ég viti ekki nákvæmlega um ástandið á Aroni þá á ég ekki von á að hann verði lengi frá,“ sagði Madsen og bætti við að hann hafi í fyrstu óttast að meiðsli þau sem hrjáðu Aron í fótlegg í vor og í haust hefðu tekið sig upp. Svo hafi sem betur fer ekki verið raunin.
Aalborg á heimaleik við neðsta lið dönsku úrvalsdeildarinnar, Midtjylland, á sunnudaginn. Eftir leikinn verður gert hlé á dönsku úrvalsdeildinni eins og víða annarstaðar vegna landsleikja í undankeppni Evrópumótsins í næstu viku. Aron er vitanlega í íslenska landsliðshópnum sem kemur saman hér á landi á mánudagsmorgun.
- Auglýsing -