„Ég túlka þessar myndir sem gróft brot og ætla að horfa á upptöku til að átta mig betur á þessu. Ég hef beðið dómara um að fylgjast vel með brotum af þessu tagi,“ sagði Kristján Gaukur Kristjánsson formaður dómaranefndar HSÍ þegar hann sá myndir sem Þórir Tryggvasonar ljósmyndari á Akureyri deildi með handbolta.is frá viðureign KA og ÍR í Olísdeild karla í handknattleik sem fram fór í gærkvöld. Syrpu með myndunum er finna hér fyrir neðan.
Uppfært: Að ósk viðmælanda, Kristjáns Gauks Kristjánssonar, var tilvitnun í ummæli hans breytt klukkan 14.05, föstudaginn 7. október. Vill Kristján með breytingunni milda orðalag sitt sem áður var vitnað til.
Á myndunum, sem teknar voru í fyrri hálfleik, er Úlfur Gunnar Kjartansson leikmaður ÍR í vörn gegn Allan Norðberg leikmanni KA. Úlfur Gunnar mætir Allan með útréttum handleggjum og til að bæta gráu ofan á svart þá er hnefi hægri handar Úlfs Gunnars krepptur talsvert áður en hann mætir Allan.
Eins og kemur fram að ofan hjá formanni dómaranefndar er litið á varnarleik sem þennan mjög alvarlegum augum. Hefur verið skorin upp herhör gegn honum um nokkurt skeið, bæði hérlendis sem erlendis, enda getur hann dregið verulegan dilk á eftir sér fyrir þann sem fyrir honum verður.
Fréttin var uppfærð og fyrirsögn breytt klukkan 14.05, 7. október. Sjá skýringu eftir fyrstu málsgrein. – ritstjóri.