- Auglýsing -
- Daníel Þór Ingason var í miklum ham í gær og skoraði átta mörk í níu skotum fyrir Balingen-Weilstetten þegar liðið vann Dormagen, 27:24, á heimavelli í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Oddur Gretarsson, samherji Daníels Þórs, skoraði fjögur mörk, þar af þrjú úr vítaköstum. Balingen er í efsta sæti deildarinnar með 12 stig eftir sex leiki.
- Tumi Steinn Rúnarsson er ennþá fjarverandi vegna meiðsla og var þar af leiðandi ekki með Coburg þegar liðið vann Ludwigshafen, 32:26, á heimavelli í þýsku 2. deildinni í gær. Coburg hefur farið vel af stað er í 5. sæti með átta stig.
- Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik með Skara HF í gær í 10 marka tapi liðsins, 34:24, fyrir Höörs HK H65 í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Leikið var á heimavelli Höörsinga. Aldís Ásta Heimisdóttir var markahæst hjá Skara með fimm mörk. Ásdís Guðmundsdóttir skoraði ekki fyrir Skara að þessu sinni. Skara er í 9. sæti með tvö stig eftir fjóra leiki.
- Vilborg Pétursdóttir fyrrverandi leikmaður Hauka var í liði AIK sem tapaði á útivelli fyrir IFK Ystads, 32:26, í næst efstu deild sænska handknattleiksins í gær. AIK hefur farið illa af stað og rekur lestina í deildinni.
- Halldór Jóhann Sigfússon og hans menn í Holstebro töpuðu á heimavelli í gær fyrir Danmerkurmeisturum GOG, 34:31, á heimavelli í úrvalsdeildinni. Holstebro er í áttunda sæti með sjö stig að loknum sjö leikjum. GOG er efst með 12 stig þegar sjö leikir eru að baki.
- Haukur Þrastarson skoraði eitt mark fyrir Kielce í gær þegar liðið vann Wybrzeże Gdańsk, 31:20 í 6. umferð pólsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Leikið var í Gdańsk. Þetta var sjötti sigur Kielce í deildinni á tímabilinu.
- Harpa Rut Jónsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir GC Amicitia Zürich þegar liðið tapaði naumlega fyrir HV Herzogenbuchsee, 26:25, á útivelli í svissnesku A-deildinni í gær. Sunna Guðrún Pétursdóttir, markvörður, sat á varamannabekknum allan leikinn. GC Amicitia Zürich er í öðru sæti deildarinnar með sex stig eftir sex leiki. SPONO Eagels er efst með sjö stig en hefur aðeins lokið fjórum leikjum.
- Aðalsteinn Eyjólfsson fagnaði sigri í uppgjöri Íslendingaliðanna í svissnesku A-deildinni í gær þegar Kadetten Schaffhausen vann GC Amicitia Zürich, 33:28, á heimavelli. Aðalsteinn er þjálfari Kadetten sem er í öðru sæti deildarinnar. Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði eitt mark fyrir GC Amicitia Zürich sem er í fjórða sæti með átta stig eftir sex viðureignir.
- Lærisveinar Hannesar Jóns Jónssonar í Alpla Hard sitja áfram í öðru sæti í austurrísku 1. deildinni í handknattleik. Alpla vann Füchse, 31:22, á heimavelli í gær og hafa 11 stig eftir sex umferðir. Krems er efst með 12 stig. Væntanlegir andstæðingar KA í Evrópubikarkeppninni síðar í þessum mánuði, Fivers, eru í þriðja sæti með 10 stig.
- Auglýsing -