- Auglýsing -
„Við erum glaðir yfir að hafa stofnað liðið og erum afar spenntir fyrir fyrsta leiknum,“ sagði Orfeus Andreou helsti hvatamaður að stofnun handknattleiksdeildar hjá Víði Garði og hóp manna sem hefur æft saman handknattleik á Suðurnesjum síðan snemma á þessu ári.
Aukaaðalfundur Víðis í Garði samþykkti mótbárulaust stofnun handknattleiksdeildar innan félagsins á dögunum. Þar með getur lið undir merkjum Víðis tekið þátt í 2. deildar keppni karla sem hefst um miðjan þennan mánuð. Fyrsti leikurinn verður gegn ÍBV U í Vestmannaeyjum á laugardag.
Andreou segir að um 20 karlmenn æfi að jafnaði undir hans stjórn en æft er þrisvar í viku í góðu íþróttahúsi í Garðinum sem er hluti af Suðurnesjabæ. Andreou segir það ekki hafa verið auðvelt að finna æfingunum stað í upphafi.
„Okkur var strax vel tekið í Garðinum og við höfum verið þar síðan við æfingar og líkar mjög vel,“ sagði Orfeus Andreou sem hlakkar til fyrsta leiks Víðis á Íslandsmótinu í handknattleik karla.
- Auglýsing -