„Við erum með hörkusamkeppni í liðinu. Þess vegna þýðir ekkert að slaka á. Menn verða að keyra á fullri ferð til enda. Svona viljum við vera,“ sagði Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson í samtali við handbolta.is eftir stórsigur íslenska landsliðsins í handknattleik á landsliði Ísraels, 36:21, í fyrsta leiknum í undankeppni EM2024 á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.
Féllum ekki í gryfjuna
„Við viljum sýna fagmennsku til leiksloka. Það sýndi mikinn styrk okkar að klára leikinn almennilega. Maður hefur tekið þátt í mörgum leikjum þar sem menn hafa slakað á þegar forskotið er orðið þægilegt. Við féllum ekki í þá gryfju í kvöld. Við sýndum ábyrgð inn á vellinum að það er ekki í boði að slaka á,“ sagði Elliði Snær og bætti við að menn hafi sent skýr skilaboð frá sér að þessu sinni.
Vörnin lak í byrjun
„Ísraelsmennirnir geta verið illviðráðanlegir og voru það framan af fyrri hálfleik enda margir þeirra litlir og snöggir. Vörnin lak aðeins í byrjun en þá bjargaði Bjöggi [Björgvin Páll Gústavsson] okkur sem lagði grunn að góðu forskoti. Segja má að hann hafi haldið okkur á floti til að byrja með. En eftir að við náðum forskoti þá small allt hjá okkur. Við keyrðum síðan grimmt hraðaupphlaup og þá þreyttust þeir fljótt,“ sagði Elliði Snær sem lék talsvert með í vörninni og var með í sóknarleiknum framan af og skoraði tvö mörk í leiknum, annað yfir endilangan völlinn.
Rennt blint í sjóinn
Elliði Snær sagði menn hafa rennt blint í sjóinn fyrir leikinn þar sem nýr þjálfari var við stjórnvölin hjá ísraelska liðinu og alls óvíst hversu miklar breytingar yrðu á leik þeirra frá viðureignunum í lok apríl og í byrjun maí 2021 þegar landslið Íslands og Ísraels mættust síðast.
„Við urðum aðeins að geta í eyðurnar framan af. Þegar á leið leikinn þá vorum við farnir að lesa betur sóknarleikinn hjá þeim,“ sagði Elliði Snær Viðarsson sem fer ásamt félögum sínum í íslenska landsliðinu til Tallin í fyrramálið þar sem leikið verður við Eistlendinga á laugardaginn í annarri umferð undankeppni Evrópumótsins, 3. riðli.
Eistneska landsliðið tapaði með átta marka mun fyrir Tékkum í kvöld, 31:23, í Tékklandi.