- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þriðja gríska liðið bíður ÍBV um helgina

Sigurður Bragason þjálfari ÍBV, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Harpa Valey Gylfadóttir og félagar í ÍBV taka á móti Haukum í oddaleik. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Engu er líkara en það sé Grikklandssegull á okkur í ÍBV-liðinu,“ sagði Sunna Jónsdóttir leikmaður ÍBV-liðsins í samtali við handbolta.is í gærkvöld vegna væntanlegra leikja liðsins við O.F.N. Ionias frá Grikklandi í Vestmannaeyjum um helgina. O.F.N. Ionias verður þriðja gríska félagsliðið sem ÍBV mætir í Evróubikarkeppni kvenna á einu ári.

Fyrri leikur ÍBV og O.F.N. Ionias verður í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum klukkan 14 á morgun, laugardag. Síðari viðureignin fer fram á sunnudaginn og hefst einnig klukkan 14. Miðasala er á smáforritinu Stubbur. Líkt og á öðrum Evrópuleikjum ÍBV er hægt að kaupa helgarpassa á Stubbi. Passinn gildir á báða leikina. Þeir sem eiga ekki heimangengt en vilja standa geta á einfaldan hátt keypt miða á Stubbi.

Næst á eftir PAOK

O.F.N. Ionias hafnaði í öðru sæti í grísku úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili, var næst á eftir PAOK sem ÍBV sló úr leik í 1. umferð keppninnar. „Við höfum séð upptökur af tveimur leikjum liðsins og miðað við þær þá er um gott lið að ræða. En vissulega rennum við örlítið blint í sjóinn. Það getur verið erfitt að staðsetja sig gagnvart andstæðingi sem maður hefur bara séð á upptöku af leikjum,“ sagði Sunna og bætti við.


„Ég reikna bara með að leikirnir verði stál í stál og að við eigum helmingsmöguleika,“ sagði Sunna ennfremur.

Von er leikmönnum O.F.N. Ionias til Vestmannaeyja um miðjan daginn en vegna margskonar vanda Herjólfs þrjú, hefur koma liðsins tafist úr hófi. Í dag er eingöngu siglt á milli Eyja og Þorlákshafnar. Kurr er Grikkjum vegna þessa og m.a. er óvíst hvort liðið getur æft í keppnishöllinni í Vestmannaeyjum í kvöld eða hvort af henni verði gagn komi til æfingar.

Höfum góða reynslu

„Við búum að góðri reynslu af því að mæta grískum félagsliðum frá síðasta ári þegar við mættum PAOK sem var hörkulið og síðan Panorama sem var talsvert slakara. Við reiknum með hörkuleikjum og spennandi,“ sagði Sunna

Kærkomin tilbreyting

„Okkur gekk vel í Evrópukeppninni á síðasta tímabili og náðum alla leið í átta liða úrslit. Segja má að þátttakan hafi verið ákveðin gulrót fyrir okkur, braut upp tímabilið og var tilbreyting frá því að leika við liðin hér heima sem þekkjast orðið mjög vel. Við erum ánægðar með fá tækifæri til þess að taka aftur þátt í Evrópukeppni,“ sagði Sunna sem er þrautreynd handknattleikskona, jafnt með landsliðinu og félagsliðum hér á landi og á Norðurlöndunum.

Af 21 leikmanni liðsins sem er á skrá hjá Handkattleikssambandi Evrópu eru 17 Grikkir, tveir leikmenn frá Svartfjallalandi. Önnur þeirra er Natasa Krnic sem virðist afar reynslumikil og hefur víða komið við á löngum ferli.

Einnig er innan liðsins rússneska handknattleikskonan Tatiana Khmyrova. Hún er 32 ára og á að baki 58 landsleiki fyrir Rússland og var m.a. með á HM í Kína 2009 þegar rússneska landsliðið vann gullverðlaun. Hún var einnig í bronsliði Rússa á EM 2009. Khmyrova er reynslumikil og hefur m.a. leikið með HC Vardar í Norður Makedóníu og Siófok KC í Ungverjalandi en hefur síðustu þrjú ár leikið með O.F.N. Ionias. Khmyrova virðist ekki hafa verið í rússneska landsliðinu að neinu marki síðan á EM 2016.

Úkraínska handknattleikskonan Yuliya Shlyakhova er einnig innan raða gríska liðsins og hefur verið frá 2009.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -