Vika er þangað til Íslands- og bikarmeistarar Vals í handknattleik karla hefja keppni í Evrópudeildinni í handknattleik karla. Fyrsta viðureignin verður á heimavelli, Origohöllinni, gegn ungverska liðinu Ferencváros, eða FTC frá Búapes. Stundvíslega klukkan 18.45 verður flautað til leiks.
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og það vita Valsarar og hafa þessvegna opnað fyrir miðasölu á tix.is á leikinn við FTC sem fram fer á þriðjudagskvöldið eftir viku. Miðaverð er frá 1.000 og upp í 6.000 kr. Flestir eiga þar með að finna miða við hæfi.
Í tilkynningu er vakin athygli á VIP miðum. Þeim fylgir aðgangur að sér svæði þar sem boðið verður uppá léttar veitingar fyrir leik, í hálfleik og eftir leik. Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Japan mun greina andstæðinga Vals fyrir alla leiki.
Rétt er að hvetja handknattleiksáhugafólk hvar í flokki sem það stendur til að tryggja sér miða á leikinn og taka þátt í Evrópuævintýri Valsmanna sem er stærsta og metnaðarfyllsta verkefni sem íslenskt handknattleikslið hefur tekið þátt, alltént um langt árabil. Stefnir Valur á fylla Origohöllina á öllum heimaleikjum.
Eftir viðureignina við Ferencváros á þriðjudaginn eftir viku rekur hver leikurinn annan hjá Valsmönnum í Evrópudeildinni en alls leikur liðið sex leiki fram til 13. desember þegar hlé verður gert. Þráðurinn verður tekinn upp í febrúar þegar síðustu fjórar umferðirnar fara fram á jafnmörgum vikum.
Þrír leikir af sex leikjum Vals sem fram fara fyrir áramót verða háðir í Origohöllinni. Auk viðureignarinnar við Ferencváros koma Teitur Örn Einarsson og samherjar í Flensburg hingað til lands þegar hallar á næsta mánuð og leika 22. nóvember í Orighöllinni. Sænska meistararnir Ystads IF HF mæta í Origohöllina 13. desember.
Staðfest leikjadagskrá Vals í Evrópudeildinni fram til 13. desember:
25. október:
Origohöllin: Valur – FTC (Ferencváros), kl. 18.45.
1. nóvember:
Spánn: TM Benidorm – Valur, kl. 19.45.
22. nóvember:
Origohöllin: Valur – Flensburg-Handewitt, kl. 19.45.
29. nóvember:
Aix, Frakkl.: PAUC Handball – Valur, kl. 19.45.
6. desember:
Erd Arena, Búdapest: FTC (Ferencváros) – Valur, kl. 17.45.
13. desember:
Origohöllin: Valur – Ystads IF HF, kl. 19.45.
Allar tímasetningar eru miðaðar við klukkuna á Íslandi. Einnig hefur verið tekið með í reikninginn að klukkan verður færð aftur um eina stund í Evrópu á miðnætti 30. október.