- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Döhler tryggði FH bæði stigin í grannaslag

Phil Döhler, markvörður FH, hefur auga á skoti Andra Más Rúnarssonar. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Phil Döhler, markvörður, sá til þess að FH fór með bæði stigin í viðureign sinni við granna sína í Haukum í Kaplakrika í kvöld. Þjóðverjinn hafði verið daufur í markinu í síðari hálfleik en reis upp þegar mest á reyndi og varði skot frá Andra Má Rúnarssyni þegar sjö sekúndur voru til leiksloka. Leikmenn FH ærðust af fögnuði yfir eins marks torsóttum sigri, 27:26, enda komnir stigi upp fyrir Haukana, í fjórða sæti, þegar hvort lið hefur lokið sex viðureignum í Olísdeildinni.


Birgir Mar Birgisson skoraði sigurmarkið þegar um 45 sekúndur voru til leiksoka.


FH var þremur mörkum yfir í hálfleik, 13:10, eftir afar slakan leik Hauka. FH komst strax 5:1 yfir eftir fimm mínútur. Haukar réttu úr kútnum á næstu tíu mínútum og jöfnuðu metin, 7:7. Þar með hljóp flest í baklás hjá liðinu það sem eftir lifði hálfleiksins.

Birgir Már Birgisson skoraði sigurmarkið í Krikanum. Mynd/J.L.Long


Hauka léku skár í síðari hálfleik en í þeim fyrri. Þeim gekk hinsvegar illa að nýta tækifærin, m.a. voru þeir sex sinnum í yfirtölu í leiknum en tókst ekki nema einu sinni að færa sér hana í nyt. Það var eins og álög væri á liði Hauka, í hvert sinn sem það jafnaði metin þá datt botninn úr.

Jóhann Birgir Ingvarsson og Ágúst Birgisson kampakátir í leikslok. Mynd/J.L.Long


FH-ingar seigluðust áfram allan leikinn. Þeir voru nærri búnir að tapa a.m.k. öðru stiginu undir lokin með því að hleypa Haukum inn í leikinn. FH var nefnilega þremur mörkum yfir, 26:23, þegar rétt innan við fimm mínútur voru til leiksloka. Þegar upp var staðið var sigur FH sanngjarn. Þeir voru betri lengst af þótt ekki hafi leikur liðsins verið góður á köflum.


Hauka hljóta að geta gert betur en þetta. Sóknarleikur liðsins var ansi hreint erfiður á köflum auk þess sem talsvert var um einföld mistök, sem hafa verið lítt sýnileg hjá Haukum í gegnum tíðina.


Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 4/3, Birgir Már Birgisson 4, Jón Bjarni Ólafsson 3, Jóhannes Berg Andrason 3, Einar Bragi Aðalsteinsson 3, Einar Örn Sindrason 3, Ágúst Birgisson 2, Leonharð Þorgeir Harðarson 2, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Jóhann Birgir Ingvarsson 1.
Varin skot: Phil Döhler 10, 30,3%, Axel Hreinn Hilmisson 2, 50%.
Mörk Hauka: Andri Már Rúnarsson 6, Ólafur Ægir Ólafsson 5, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 4, Guðmundur Bragi Ástþórsson 4, Stefán Rafn Sigurmannsson 3/2, Adam Haukur Baumruk 2, Geir Guðmundsson 1, Heimir Óli Heimisson 1.
Varin skot: Matas Pranckevicius 13, 33,3%.

Ágúst Birgisson fyrirliði FH skorar í leiknum í Krikanum í kvöld. Mynd/J.L.Long


Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.


Staðan í Olísdeild karla.


Handbolti.is fylgdist með leiknum í Kaplakrika í beinni textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -