Tveimur dögum eftir að forsvarsmenn IFK Kristianstad sögðu upp þjálfaranum, Ljubomir Vrjanes, eftir slakt gengi í síðustu leikjum risu leikmenn liðsins upp á afturlappirnar og unnu Alingsås með fjögurra marka, 31:27, á heimavelli í kvöld í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Íslendingar voru áberandi í leiknum enda mikilvægir leikmenn í báðum liðum.
Ólafur Andrés Guðmundsson, fyrirliði Kristianstad, skoraði sjö mörk og var markahæsti leikmaður liðsins. Ólafur átti 11 markskot auk þess að eiga tvær stoðsendingar. Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk í fimm skotum auk fimm stoðsendinga.
Aron Dagur Pálsson skoraði eitt mark fyrir Alingsås og var með fjórar stoðsendingar.
Daníel Freyr Andrésson varði 10 skot, sem var 32% hlutfallsmarkvarsla, þegar lið hans, Guif, tapaði, 31:27, fyrir botnliði Redbergslid sem einnig sagði upp þjálfara sínum á dögunum. Redbergslid rauk upp úr botnsætinu með sigrinum í Eskilstuna.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson kom lítið við sögu þegar Skövde tapaði í heimsókn sinni til Lugi í Lundi, 26:21. Bjarni Ófeigur hefur ekki alveg náð sér af nárameiðslum sem hann varð fyrir á dögunum.
Staðan í sænsku úrvalsdeildinni:
Malmö 27(17), Ystads IF 25(17), Alingsås 23(18), Skövde 21(18), Lugi 21(18), Kristiandstad 20 (17), Sävehof 20(16), IFK Ystads 17(17), Hallby 16(18), Önnereds 12(16), Guif 12(17), Redbergslid 11(17), Varberg 11(17), Helsingborg 10(16), Aranäs 10(17).