Fjórir íslenskir handknattleiksmenn skoruðu níu mörk þegar lið þeirra mættust í þýsku 1. deildinni í fyrri viðureign dagsins. Arnór Þór Gunnarsson og Ragnar Jóhansson voru í sigurliði Bergischer HC sem lagði Elvar Ásgeirsson og Viggó Kristjánsson í Stuttgart, 30:26, í Porsche-Arena í Stuttgart. Bergischer var sex mörk yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:12.
Arnór Þór skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer, öll úr vítaköstum. Ragnar skoraði ekki að þessu sinni en var í leikmannahópi liðsins.
Viggó skoraði fjögur mörk úr níu skotum, ekkert úr vítakasti. Elvar skoraði úr báðum markskotum sínum að þessu sinni auk þess sem að láta til sín taka í vörninni. Elvar hefur fengið fleiri tækifæri í sóknarleik Stuttgart í allra síðustu leikjum en framan af keppnistímabilinu.
„Við byrjuðum frábærlega og vorum með yfirhöndina í fyrri hálfleik,“ sagði Arnór Þór við handbolta.is eftir leikinn og bætti við. „Í seinni byrjaði þetta vel hjá en svo byrjaði Jogi Bitter, markvörður Stuttgart, að verja og við fengum ódýr hraðhlaupsmörk á okkur. Þá dró saman með liðunum og Stuttgart byrjaði að saxa á forskot okkur. Síðustu 10 mínúturnar vorum við betri og náðum að skora úr okkar færum og héldum þetta vel út,“ sagði Arnór Þór en þetta var síðasta leikur Bergsicher á HM árinu. Arnór Þór sagðist vera feginn að fá nokkra daga til kasta mæðinni áður en HM undirbúningur hefst með íslenska landsliðinu í upphafi nýs árs.
„Það hefur verið mikil törn hjá okkur upp á síðkastið. Þetta var fimmti leikurinn á fjórtán dögum,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson, leikmaður Bergischer HC.
Til stóð að Janus Daði Smárason og samherjar í Göppingen tækju á móti leikmönnum GWD Minden í dag. Af leiknum var ekki þar sem leikmenn Göppingen dúsa í sóttkví um þessar mundir eins og handbolti.is sagði frá á dögunum.
Í kvöld mætast SC Magdeburg, með Gísla Þorgeir Kristjánsson og Ómar Inga Magnússon innanborðs, og Hannover-Burgdorf á heimavelli í Magdeburg.
Staðan í þýsku 1. deildinni:
Flensburg 23(13), Kiel 22(12), Rhein-Neckar Löwen 21(14), Füchse Berlin 19(12), Magdeburg 17(13), Leipzig 17(14), Bergischer 16(15), Göppingen 15(14), Stuttgart 15(15), Wetzlar 15(15), Lemgo 15(15), Hannover-Burgdorf 14(14), Melsungen 13(10), Erlangen 13(15), GWD Minden 10(12), Nordhorn 8(15), Balingen-Weilstetten 7(15), Ludwigshafen 6(15), Essen 5(12), Coburg 3(14).