Eftir að hafa beðið afhroð í viðureign við hollenska landsliðið á æfingamóti í Stavangri fyrir helgina þá sneru leikmenn norska landsliðsins í handknattleik kvenna, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, bökum saman í tveimur síðari leikjum mótsins.
Norsku heimsmeistararnir unnu Dani, 28:27, á laugardaginn og brasilíska landsliðið í gær, 27:22, í 300. leiknum undir stjórn Þóris frá því að hann tók við sem aðalþjálfari 2009.
Þetta voru síðustu leikir heims- og Evrópumeistaranna áður en þeir halda til Ljubljana síðar í vikunni vegna þátttöku á Evrópumeistaramótinu sem hefst á föstudaginn.
Sigurinn á Dönum á laugardaginn var sá sextándi í röð hjá norska landsliðinu á nágrönnum sínum.
Ný stjarna að verða til
Kristina Sirum Novak sló í gegn með norska landsliðinu í sigurleiknum á Brasilíu í gær. Hún er 22 ára gömul og leikur með Sola og var þar af leiðandi nánast á heimavelli í Stavangri. Novak, sem lék sinn fyrsta A-landsleik í apríl á þessu ári, skoraði sjö mörk í gær. Bundnar er talsverðar vonir við Novak á komandi árum og jafnvel talið að hún verði arftaki Nora Mørk þegar fram líða stundir.
Mørk hefur verið meidd upp á síðkastið en lék aðeins með á mótinu í Stavangri. M.a. allan fyrri hálfleikinn í viðureigninni við brasilíska landsliðið. Hermt er í norskum fjölmiðlum að Mørk verði tilbúin í slaginn þegar EM hefst.