Valur er jafn Flensburg í efsta sæti B-riðils Evrópudeildarinnar í handknattleik karla eftir að hafa lagt lið TM Benidorm á Spáni í kvöld, 32:29, eftir að hafa náð annarri frábærri frammistöðu í keppninni á einni viku. Næsti leikur Vals í keppninni verður á móti hinu taplausa liðinu, Flensburg, eftir þrjár vikur í Origohöllinni.
Á það hefur verið bent i kvöld af tölfræðingum að Valur er fyrsta íslenska liðið til þess að vinna tvo leiki í röð í riðlakeppni Evrópumóts félagsliða.
Valur skoraði 20 mörk í síðari hálfleik í dag og hafði yfirhöndina allan hálfleikinn og megnið af fyrri hálfleik. Staðan var jöfn í hálfleik, 12:12.
Valur hafði heldur frumkvæði í fyrri hálfleik var með þriggja marka forskot, 9:6, þegar liðið missti tvo leikmenn af leikvelli með skömmu millibili, þar af annað með rautt spjald.
Gáfust upp á herbragðinu
Betur gekk að keyra upp hraðann í síðari hálfleik af hálfu Valsmanna en heimamenn gerðu hvað þeir gátu til þess að halda hraðanum niðri. Þeir léku með sjö menn í sókn, þar af lengst af með þrjá línumenn þangað til á 52. mínútu að breytt var um kúrs og leikið með sex menn í sókn. Frábær leikur Valsmanna neyddi þjálfara Benidorm til þess að gefast upp á helsta herbragði sínu, enda hafði það snúist upp í andhverfu sína og fært Valsmönnum góð mörk eftir hraðaupphlaup.
Arnór Snær innsiglaði sigurinn
Undir lokin tókst Benidormliðinu að minnka muninn í eitt mark, 29:30, áður en Arnór Snær Óskarsson skoraði 31. markið eftir að hafa komið óvænt inn á sem sjöundi maður í miðri sókn 45 sekúndum fyrir leikslok. Björgvin Páll varði eitt 16 skota sinna í kjölfarið. Fyrrgreindur Arnór Snær innsiglaði sigurinn á síðustu sekúndum með áttunda marki sínu.
Tveir fengu rautt – Róbert meiddist
Tveir leikmenn Vals fengu rautt spjald í leiknum. Alexander Örn Júlíusson á 18. mínútu og Þorgils Jón Svölu Baldursson þegar fimm mínútur voru eftir. Til viðbótar meiddist Róbert Aron Hostert þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Ekki er útilokað að Róbert hafi tognað á læri sem væri vond staðreynd.
Framúrskarandi leikur hjá Val og rétt að hrósa öllum. Það kom alltaf maður í manns stað.
Mörk Vals: Arnór Snær Óskarsson 8, Magnús Óli Magnússon 6, Stiven Tobar Valencia 4, Benedikt Gunnar Óskarsson 3, Tjörvi Týr Gíslason 3, Róbert Aron Hostert 3, Björgvin Páll Gústavsson 1, Aron Dagur Pálsson 1, Vignir Stefánsson 1, Alexander Örn Júlíusson 1, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16/2, 36%.
Mörk TM Benidorm: Ramiro Martinez 5, Ivan Martinez 5, Eduardo Calle 4, Santiago Barcelo 4, Juan Carlos Sempere 3, Ivan Nikcevic 2, Iker Serrano 2, Jules José Lignierers 1, Rolandas Bernatonis 1, Roberto Rodriguez 1, Dragan Soljic 1.
Varin skot: Roberto Rodríguez Lario 9, 27% – Samuel Ibanez Juan 1, 16,6%
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.