- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ragnar flytur heim og gengur til liðs við Selfoss

Ragnar Jóhannsson verður leikmaður Selfoss á nýju ári. Mynd/Selfoss
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Ragnar Jóhannsson verður leikmaður Selfoss á nýju ári. Hann hefur samið við Handknattleiksdeild Selfoss til þriggja ára. Um mikinn liðsstyrk er að ræða fyrir Selfoss-liðið en Ragnar hefur undanfarin tæp sex ár leikið í Þýskalandi, nú síðast hjá Bergischer HC. Félagið hefur gert samkomulag um að leysa Ragnar undan samningi frá og með áramótum. Samningur Ragnars við Bergischer var til loka leiktíðar um mitt næsta ár.

Ragnar, sem stendur á þrítugu og er örvhent skytta, þekkir vel til í herbúðum Selfoss enda alinn þar upp og lék með liðinu upp í meistaraflokk og fram til ársins 2011 að hann gekk til liðs við FH. Ragnar lék með FH til ársins 2015 þegar hann flutti til Þýskalands og samdi við Hüttenberg. Með Hüttenberg lék Ragnar til ársins 2019 er hann samdi við Bergischer HC.

Ragnar var markakóngur næst efstu deildar 2010 og úrvalsdeildar árið eftir. Hann er ekki aðeins afbragðs skytta heldur einnig öflugur varnarmaður.  Alls lék Ragnar 93 leiki með meistaraflokki Selfoss frá 2005 til 2011 og skoraði á þeim tíma 524 mörk.

Ragnar Jóhannsson klár í slaginn í búningi Selfoss-liðsins. Mynd/Selfoss

Ragnar á að baki fjóra A-landsleiki sem hann hefur skorað í þrjú mörk og var síðast í landsliðinu á fjögurra þjóða móti í Björgvin í Noregi vorið 2018.

Ragnar verður gjaldgengur með Selfoss-liðinu um leið og keppni hefst á nýjan leik í Olísdeildinni. Vonir standa til þess að flautað verði til leiks þegar líður á janúar.

Í tilkynningu frá Handknattleiksdeild Selfoss segir að með stuðningi dyggra stuðningsaðila hafi verið hægt að gera það að raunveruleika á þessum tíma að Ragnar komi heims til liðs við sitt uppeldisfélag.

Hér fyrir neðan er stutt myndband sem Handknattleiksdeild Selfoss hefur tekið saman um Ragnar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -